Valda völd konum þunglyndi?

Munu fyrirfram skilgreind kynjahlutverk stúlkunnar valda henni þunglyndi í framtíðinni?
Munu fyrirfram skilgreind kynjahlutverk stúlkunnar valda henni þunglyndi í framtíðinni? mbl.is/Kristinn

Að vera í valdastöðu virðist auka einkenni þunglyndis í konum samkvæmt nýrri rannsókn frá The American Socialogical Association sem greint er frá á Science of Us. Aukin völd virðast hinsvegar hafa þveröfug áhrif á karlmenn.

Vísindamenn nýttu sér spurningalista sem lagður hafði verið fyrir 1.300 karlmenn og 1.500 konur á árunum 1993 til 2004 en í honum voru tekin saman gögn um andlega líðan og stöðu svarenda á atvinnumarkaði á tímabilinu.

Þær konur sem rætt var við og gegndu valdastöðu höfðu alla burði til að vera hamingjusamar miðað við önnur gögn sem lágu fyrir. Þær voru vel menntaðar, með hærri tekjur og meiri starfsánægju en jafningjar þeirra sem vanalega myndi benda til aukins geðheilbrigðis. Raunin var hinsvegar önnur.

Rannsóknin sýndi ekki fram á hvers vegna konurnar upplifðu fleiri einkenni þunglyndis en karlmenn í svipuðum stöðum. Vísindamennirnir hafa þó sett fram þá kenningu að þunglyndið sé afleiðing taugaspennu sem konur upplifa við að ganga gegn stöðluðum kynjahlutverkum.

„Félagsfræðirannsóknir síðustu ára benda til þess að konur í valdastöðum glími við taugaspennu, neikvæð félagsleg samskipti, neikvæðar staðalímyndir, fordóma, félagslega einangrun sem og andstöðu frá undirmönnum, samstarfsmönnum og yfirmönnum,“ segir Tetyana Pudrovska, einn af höfundum rannsóknarinnar, sem vonast til að niðurstöðurnar muni hjálpa atvinnurekendum að tækla vandamálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert