Hraði bráðnunar eykst

Hvítur ís og blár sjór á Suðurskautslandinu.
Hvítur ís og blár sjór á Suðurskautslandinu. AFP

Bráðnunarhraði jökla í þeim hluta Suðurskautslandsins þar sem bráðnunin er hröðust hefur þrefaldast síðusta áratug, segja vísindamenn sem gert hafa greiningu á þróuninni sl. 21 ár.

Jöklar í hinu ísilagða Amundsenhafi í vesturhluta Suðurskautslandsins bráðna hraðar en aðrir jöklar heimsálfunnar og eru stærsti einstaki orsakavaldur hækkandi sjávar, samkvæmt vísindamönnum við Kaliforníuháskóla í Irvin og NASA.

Samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem birtar voru í maí sl. bráðna jöklar í vesturhluta Suðurskautslandsins sífellt hraðar og svo virðist sem ekki sé hægt að snúa þróuninni við. Ef þeir bráðnuðu alveg, myndi sjávarborð hækka um að minnsta kosti metra.

Að sögn vísindindamannanna er rannsókn þeirra sú fyrsta sem notast við niðurstöður fjögurra ólíkra mæliaðferða til að leggja sem áreiðanlegast mat á magn og hraða bráðnunar sl. tvo áratugi. Niðurstöðurnar verða birtar í tímaritinu Geophysical Research Letters 5. desember.

Mælingarnar voru m.a. gerðar með ratsjá og gervihnöttum NASA og Evrópsku geimferðastofnunarinnar, og einnig var notast við loftslagsreiknilíkan Háskólans í Utrecht í Hollandi.

Frá 1992 hafa að meðaltali tapast 83 gígatonn af ís á ári hverju. Bráðnun jökla á umræddu svæði á Suðurskautslandinu hefur aukist um 6,1 gígatonn á ári að jafnaði, en frá 2003-2009, jókst bráðnunin í 16,3 gígatonn á ári.

Niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnu um hnattræna hlýnun í Perú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert