Fann lífræn efnasambönd á Mars

Curiosity boraði þessa holu í jarðveginn á Mars 19. maí …
Curiosity boraði þessa holu í jarðveginn á Mars 19. maí 2013 og tók sýni úr berginu. NASA/JPL-Caltech/MSSS

Könnunarjeppinn Curiosity hefur greint verulegt magn af lífræna efnasambandinu metani á reikistjörnunni Mars. Metanið gæti verið tilkomið af bæði líffræðilegum og öðrum orsökum en uppgötvun þess gæti verið vísbending um að líf hafi getað þrifist á reikistjörnunni áður fyrr.

Stjórnendur Curiosity notuðu nema jeppans til þess að greina andrúmsloftið í kringum hann yfir 20 mánaða tímabil. Í tveimur af þeim mánuðum greindust toppar í styrk metans. Var aukningin um tíföld miðað við afganginn af tímabilinu.

Þá fundust önnur lífræn efnasambönd þegar vélmennið boraði niður í jarðveginn. Það er í fyrsta skipti menn hafa fundið lífræn efni í jarðvegi Mars með vissu. Þau gætu annað hvort hafa myndast á reikistjörnunni eða borist þangað með loftsteinum.

„Þessi tímabundna aukning metans, sem fór skarpt upp og svo aftur niður, segir okkur að það hljóti að vera tiltölulega afmörkuð uppspretta. Það eru margar mögulegar orsakir, líffræðilegar og ólíffræðilegar, til dæmis víxlverkun vatns og bergs,“ segir Sushil Atreya við Michigan-háskóla en hún er í vísindateymi Curiosity.

Útilokuðu að efnin kæmu frá jörðinni

Lífræn efnasambönd sem innihalda kolefni og yfirleitt vetni, eru byggingareiningar lífsins þó að þau geti verið til án þess að líf sé til staðar. Uppgötvanir Curiosity skera ekki úr um hvort að örverur hafi einhvern tímann þrifist á Mars en þær varpa ljósi á að reikistjarnan er efnafræðilega virk og mögulega hagstæð skilyrði fyrir líf þar áður fyrr.

Vísindamennirnir eyddu fleiri mánuðum í að fara yfir niðurstöður mælinganna til að taka af allan vafa um að efnasamböndin væru í raun frá Mars. Í nokkrum sýnum greindust kolefnasambönd sem bárust með jeppanum frá jörðinni. Með ítarlegum rannsóknum og greiningu telja vísindamennirnir sig nú geta fullyrt að efnin eigi uppruna sinn á Mars.

Frétt á vef NASA um uppgötvun Curiosity á lífrænum efnasamböndum á Mars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert