Gróðavænlegt að láta heiminn fara til helvítis

Randers segir hið kapítalíska kerfi ekki ráða við að beina …
Randers segir hið kapítalíska kerfi ekki ráða við að beina fjárfestingum í verkefni eins og vind- og sólarorku sem heimurinn þarfnast. AFP

Lýðræðið er ekki í stakk búið til þess að taka á víðtækum vandamálum eins og hnattrænni hlýnun vegna þess að skammtímahagnaður ræður för hjá stjórnmálamönnum og almenningi. Þetta er mat Jørgen Randers en hann var einn af fyrstu mönnunum til að vara við takmörkunum hagvaxtar í heimi með endanlegar auðlindir.

Randers var einn höfunda skýrslunnar „Takmörk vaxtar“ sem gefin var út árið 1972. Þar var lýst hvaða áhrif efnahagsvöxtur og fólksfjölgun hefði á plánetu sem hefði endanlegt magn auðlinda. Hann er prófessor í loftslagsstjórnun við Norska viðskiptaskólann.

Hann segist oft hafa verið nærri því að gefast upp á að vekja heiminn til meðvitundar um hættuna sem steðjar af loftslagsbreytingum. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafi allir brugðist þrátt fyrir að vísindalegar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun hrannist upp. Hann hefur því tapað trúnni á að lýðræðið sé í stakk búið til að taka á vandamálinu.

„Það er hagkvæmt að fresta alþjóðlegum loftslagsaðgerðum. Það er gróðavænlegt að láta heiminn fara til helvítis. Ég held að harðstjórn skammtímasjónarmiða eigi eftir að vera ofan á næstu áratugina. Þar af leiðandi verða mörg vandamál til lengri tíma litið ekki leyst, jafnvel þó að það hefði verið hægt og á sama tíma og þau valda öllum kjósendum sífellt meiri vandræðum,“ segir Randers í viðtali við sænska tímaritið Extrakt.

Lengi kjörtímabil stjórnmálamanna

Ástæðuna fyrir skammsýninni rekur Randers til þess að ábati loftslagsaðgerða verði ekki merkjanlegur fyrr en eftir tuttugu ár. Slíkar aðgerðir myndu engu að síður skila afkomendum okkur betra loftslagi. Þá segir hann hið kapítalíska kerfi ekki hjálpa til.

„Kapítalisminn er sérstaklega hannaður til að veita fé til gróðavænlegustu verkefnanna. Það er einmitt ekki það sem við þurfum núna. Við þurfum fjárfestingu í dýrari vind- og sólarorku, ekki í ódýrum kolum og gasi. Kapítalíski markaðurinn mun ekki gera þetta á eigin spýtur. Hann þarf aðrar aðstæður, breytingu á verði eða reglum,“ segir Randers.

Ein af augljósustu leiðunum sé að setja kolefnisgjald á fyrirtæki svo þau þurfi að taka losun gróðurhúsalofttegunda inn í kostnað sinn. Randers telur þó að margir kjósendur verði tregir til að greiða meira fyrir hlutina.

Randers telur að ein skynsamleg leið til að taka á stóru vandamáli eins og loftslagsbreytingar eru sé að lengja kjörtímabil stjórnmálamanna. Það myndi gefa þeim svigrúm til að hrinda óvinsælum aðgerðum í framkvæmd án þess að þurfa að óttast að tapa næstu kosningum.

Viðtal Extrakt við Sanders

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert