Staðfesta hitamet í fyrra

EPA

Árið 2014 var það heitasta í sögunni og er þetta í takt við hlýnandi veðurfar á jörðinni, samkvæmt tilkynningu frá veðurstofu Sameinuðu þjóðanna. Fjórtán af fimmtán hlýjustu árum sögunnar frá því mælingar hófust eru á þessari öld. Enn eitt metið var sett á nýliðnu ári þar sem úrhellisrigning og flóð einkenndu veðrið í einhverjum löndum og þurrkur í öðrum. 

Í næstu viku verður fjallað um hlýnun jarðar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf en fundurinn er liður í undirbúningi fyrir loftlagsráðstefnuna í París í desember.

Um miðjan janúar staðfestu bandaríska geimvísindastofnunin NASA og haf- og loftslagsstofnunin NOAA að árið 2014 er heitasta ár frá því mælingar hófust árið 1880. Þróunin er í samræmi við þá hnattrænu hlýnun sem á sér stað á jörðinni. Níu af tíu heitustu árum sem mælingar ná til hafa orðið eftir árið 2000.

Frá árinu 1880 hefur meðalhiti við yfirborð jarðar hækkað um 0,8°C, aðallega vegna aukinnar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Meirihluti þeirrar hlýnunar hefur átt sér stað á undanförnum þremur áratugum, að því er kemur fram í tilkynningu NASA.

Yfirborðshiti yfir sjó var rúmri hálfri gráðu yfir meðaltali 20. aldar og er það mesti meðalhiti eins árs sem mælst hefur. Meðalhiti við yfirborð lands var einni gráðu yfir meðaltali 20. aldar. Það er fjórða hæsta meðaltal sem mælst hefur.

Árið 2014 einkenndist af miklum hlýindum meginhluta ársins á Íslandi en víða var mjög úrkomusamt og sumarið sólarrýrt.

Óvenjuhlýtt var á landinu öllu. Við norðurströndina og víða austanlands er árið það hlýjasta frá upphafi mælinga, þar á meðal bæði í Grímsey og á Teigarhorni þar sem mælt hefur verið samfellt að kalla frá 1874 og 1872. Í flestum öðrum landshlutum var það næsthlýjasta eða þriðjahlýjasta ár sem þekkt er. Kaldast að tiltölu var það á Vestfjörðum þar sem það verður nálægt því að verða hið 5. hlýjasta. Sumarið var óvenjuhlýtt, sérstaklega á landinu norðaustanverðu þar sem það var sums staðar það hlýjasta frá upphafi mælinga.

Þrátt fyrir hlýindin þótti tíðarfar nokkuð blendið. Fyrstu mánuðir ársins voru sérlega úrkomusamir um landið austan- og norðaustanvert og var tíð þar þá erfið á köflum. Vestanlands var á sama tíma þurrt og hagstætt tíðarfar lengst af. Sumarið var hlýtt og hagstætt norðanlands og austan en lengst af votviðrasamt og sólarlítið syðra. Haustið var hagstætt en árið endaði með umhleypingasömum og fremur köldum desember.

Árið var mjög hlýtt, á bilinu 1,5 til 2,6 stig yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Að tiltölu var kaldast á Stórhöfða (hiti 1,4 stigum yfir meðallagi) en hlýjast í Grímsey (hiti 2,6 stigum ofan meðallags).

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig, það er 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990. Þetta er 19. árið í röð með hita ofan þess meðallags. Einnig var hlýtt miðað við hin seinni ár því ársmeðaltalið er 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Árið var hið næsthlýjasta í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, árið 2003 var lítillega hlýrra. Á Akureyri mældist meðalhitinn 5,3 stig, 2,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 1,0 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er einnig næsthlýjast ára á Akureyri frá upphafi samfelldra mælinga 1881, hlýrra var 1933.

2014 heitasta árið hingað til 

AFP
EPA
EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert