Vilja taka upp einnota sprautur

Á nýju sprautunum er ekki hægt að draga þrýstistautinn aftur …
Á nýju sprautunum er ekki hægt að draga þrýstistautinn aftur upp til að fylla sprautuna á ný. Á myndinni sést hins vegar hefðbundin sprauta. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stefnir að því að fyrir árið 2020 verði notkun hefðbundinna sprauta hætt og ný tegund einnota sprauta tekin í gagnið. Áætlað er að endurnotkun sprauta leiði árlega til þess að 2 milljónir manna smitast af sjúkdómum á borð við HIV og lifrarbólgu.

Nýju sprauturnar virka þannig að þegar búið er að nota þær einu sinni er ekki hægt að draga þrýstistautinn aftur upp og fylla þær í annað sinn. Þvert á móti, þá brotar stauturinn þannig að sprautan verður í raun ónýt.

Hér má sjá hvernig ein af nýju sprautunum virkar.

Dr. Selma Khamassi, sem fer fyrir teymi WHO um öryggi innspýtinga, sagði í samtali við BBC að nýju sprauturnar yrðu vonandi til þess að uppræta fjölda nýrra sjúkdómstilfella á ári, s.s. 1,7 milljón tilfelli lifrarbólgu B, 300.000 tilfelli lifrarbólgu C og 35.000 tilfelli HIV.

Talið er að um 16 milljarðar innspýtinga séu framkvæmdar á heimsvísu á ári hverju.

David Shukman, vísindaritstjóri hjá BBC, hefur fjallað um ástand af því tagi sem WHO vill koma í veg fyrir með nýju sprautunum, en hann hefur sagt frá útbreiðslu HIV í sveitasamfélagi í Roka í Kambódíu, þar sem ungbörn, grunnskólabörn og jafnvel skírlífur ábóti búddamusteris, hafa smitast. Nærri öll fengu innspýtingu hjá leyfislausum lækni, sem er grunaður um að hafa endurnotað nálar. Um er að ræða 272 smit.

Hefðbundnar sprautur kosta á bilinu tvö til fjögur sent en nýju sprauturnar eru eilítið dýrari og kosta á bilinu fjögur til sex sent. Samanlagt er um gríðarlega kostnaðarauka að ræða, en samaborið við kostnaðinn við meðferð smitsjúkdóma verður sparnaðurinn mikill ef tilætlaður árangur næst.

Einnig er til skoðunar að taka upp svokallaðar hulstraðar nálar, til að koma í veg fyrir að læknar stingi sig, en þær eru töluvert dýrari og notkun þeirra veður e.t.v. útbreidd á lengri tíma.

Hefðbundnar sprautur verða enn notaðar í ýmsum tilfellum, t.d. þegar blanda þarf nokkrum lyfjum saman í sprautunni áður en innspýting fer fram.

BBC sagði frá

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert