Nekt úthýst af Google Blogger

Óvíst er hvort að mynd af þessum toga myndi flokkast …
Óvíst er hvort að mynd af þessum toga myndi flokkast sem listræn, fræðandi eða vísindaleg samkvæmt skilmálum Google. KIMIHIRO HOSHINO

Google hefur tilkynnt notendum vefumsjónarkerfisins Blogger að gróf nekt og kynferðislegt efni verði ekki lengur leyft þar frá og með 23. mars. Nýir notendaskilmálar sem þá taka gildi leyfa þó birtingu slíks efnis sé það í þágu almannaheilla. Það á við ef nektin eða kynferðislega efnið er sett fram í samhengi við list, kennslu, heimildavinnslu eða vísindi.

Notendur geta haldið kynferðislegu efni á síðum sínum en það getur þá aðeins verið aðgengilegt notandanum og þeim sem hann kýs að deila síðunni með. Vilji notendurnir ekki fella sig við nýju skilmálana geta þeir fært blogg sín yfir í önnur umsjónarkerfi.

Skilmálar Google hafa fram að þessu lagt bann við ýmsu ólöglegu athæfni eins og barnaklámi eða níði. Tilkynningin um breytingarnar á Blogger hafa vakið nokkra gagnrýni á samfélagsmiðlum og segja sumir að um ritskoðun sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert