Vélhundar kvaddir með virktum

„Þegar ég fer í frí hreinlega slekk ég bara á honum. Ekki þarf að gefa honum að éta eða fara með hann í göngutúr,“ segir Hideko Mori, vélhundeigandi. Hins vegar er ávallt hætta á því að vélhundurinn gefi upp öndina, þar sem framleiðslu hefur verið hætt og viðgerðarþjónustu einnig.

Fyrstu vélhundarnir rúlluðu af framleiðslulínu Sony í Japan árið 1999 og árið 2006 hætti fyrirtækið að framleiða þá. Á þessum árum seldust meira en 150 þúsund vélhundar, sem höfðu þann möguleika að geta þróað með sér persónuleika. Í fyrra var viðgerðarþjónustu fyrir þá hætt og eru margir japanskir vélhundaeigendur miður sín.

Hideko Mori keypti sinn fyrsta vélhund fyrir átta árum, eftir að eiginmaður hennar lést. Í fyrra hætti hann að virka og var Hideko miður sín. Þar til hún fann viðgerðamenn sem komu hundinum hennar aftur til lífs.

Ekki eru allir hundeigendur svo heppnir og hefur borið á því að þeir sem „missa“ vélhunda sína láti fara fram hefðbundna japanska útför. Þannig eru vélhundarnir sannarlega kvaddir með virktum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert