Markaðstrúin rót afneitunar

James Inhofe, formaður umhverfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, kom með snjóbolta í …
James Inhofe, formaður umhverfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, kom með snjóbolta í þingsal til að sýna fram á að hnattræn hlýnun ætti sér ekki stað. Hann hefur m.a. skrifað bók um að loftslagsbreytingar séu ein mesta svikamylla sögunnar. C-SPAN

Hægrimenn í Bandaríkjunum hafa ekki getað horfst í augu við að loftslagsbreytingar af völdum manna eru dæmi um að frjáls markaður ráði ekki í öllum tilfellum við að leiðrétta markaðsbresti. Þetta segir yfirmaður loftslagsrannsókna NASA en hann og fleiri loftslagsvísindamenn þurfa oft að sæta harðri umræðu um sig.

Loftslagsmál hafa orðið að bitbeini stjórnmálamanna á sumum stöðum en hvergi þó á eins áberandi hátt og í Bandaríkjunum. Þar eru loftslagsvísindamenn sem greina frá þeim niðurstöðum sínum að loftslagsbreytingar séu af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum úthrópaðir sem þátttakendur í samsæri, þeir kunni ekki að fara með gögnin eða að þeir fylgi aðeins eftir meginstrauminum gagnrýnislaust.

Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknastofnunar NASA (GISS), rifjar upp þegar hann sá fyrst grein í dagblaði fyrir fjórtán árum þar sem blaðamönnum skjátlaðist algerlega. Hún fjallaði um vísindagrein sem sýndi að loftslagslíkön og athuganir kæmu vel heim og saman. Í blaðagreininni var hins vegar þveröfug ályktun dregin og var það sagt sýna endanlega að meira magn koltvísýrings væri ekki orsök hnattrænnar hlýnunar.  

„Ég hugsaði að þeir hefðu bara ruglast. Þetta var flókin grein. Þannig að ég skrifaði bréf til blaðsins. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa. Kannski hélt ég að þeir myndu þakka mér fyrir og segjast myndu gera betur næst. Þeir birtu bréfið mitt en svo var heil önnur grein um hversu hræðileg manneskja ég væri og málatilbúnaður minn væri augljós og að þeir myndu ekki láta glepjast af frjálslyndum, grænmætisætu-, sósíalísku háttum mínum. Ég held að ég hafi verið svolítið barnalegur þá en upp frá því er ég það ekki. Maður áttar sig betur á hvaða stöðu menn taka. Með því að rökræða við þá veitir maður þeim meiri athygli. Það er betra að hunsa þá bara,“ segir hann í viðtali við mbl.is.

Konur lenda sérstaklega illa í svívirðingunum

Spurður að því hversu ergjandi það sé að stjórnmálamenn, talsmenn stórfyrirtækja og einstaklingar kasti í sífellu rýrð á störf loftslagsvísindamanna, segir Schmidt að það séu ekki rugludallarnir sem ergi hann. Það sé frekar þegar aðrir vísindamenn láti glepjast út í að renna stoðum undir umræðupunkta í fjölmiðlum sem séu algerlega falskir. Stundum séu þeir barnalegir og átti sig ekki á að þeir séu að láta draga sig út í pólitíska baráttu þar sem menn reyni að vinna hug og hjarta almennings.

Umræðan um loftslagsmálin og loftslagsvísindamenn getur orðið hatrömm en eins og áður segir eru vísindamenn oft sakaðir um, í versta falli, samsæri, og í besta falli að vera ekki starfi sínu vaxnir eða blindaðir af hjarðhegðun.

„Það er ekki hægt að taka þessu persónulega því þetta er ekki beint að þér persónulega. Oft er fólk að reyna að ná viðbrögðum út úr öðrum, ekki síst á Twitter. Við tilkynntum að 2014 hafi verið heitasta árið á dögunum og það var forsíðufrétt í dagblöðum um allan heim nánast. Það fer í taugarnar á sumu fólki. Hvernig getur verið að hlýna? „Það getur ekki verið að hlýna, þið hljótið að vera að eiga við gögnin, lygnu kommúnistaúrþvættin ykkar.“ Ég fæ mikið af þessu. Ég lýg ekki, ég er ekki kommúnisti. Meira að segja konunni minni finnst ég ekki vera úrþvætti. Maður getur ekki tekið þessu alvarlega. Ég er bara tákn um það sem þessu fólki líkar ekki við,“ segir Schmidt.

Ætli menn sér að vera opinberar persónur verði þeir að hafa þykkan skráp. Að því sögðu, segir Schmidt að í sumum tilfellum geti svívirðingarnar orðið svo slæmar að ekki er hægt að búa við þær, alveg sama hversu þykkan skráp fólk hefur eða telur sig hafa.

„Það eru sérstaklega konur sem verða fyrir þessu. Ef þú ert kona sem fæst við þetta þá er það verra og það getur fengið þig til að gefast upp og hverfa af opinberum vettvangi. Það er stórslys því við þurfum á öllu þessu fólki að halda en þetta getur orðið svona slæmt. Fyrir mig hefur það ekki verið það en ég veit um fólk sem vill ekki tjá sig vegna þess að það vill ekki fá minnsta hluta af þessu,“ segir hann. 

Talið er að ísbreiður heimsskautanna muni minnka eftir því sem …
Talið er að ísbreiður heimsskautanna muni minnka eftir því sem meðalhiti jarðarinnar rís. AFP

Meira pólitískt hugleysi en alger fáfræði

Spurður að því hvers vegna hann telji að loftslagsmálin hafi orðið að svo umdeildu máli bendir Schmidt á að það sé alls ekki umdeilt alls staðar. Á flestum stöðum séu einhverjir rugludallar en staðreyndir loftslagsbreytinga séu ekki umdeildar á pólitískum vettvangi í meirihluta Evrópu.

Í Bandaríkjunum hafi loftslags jarðar hins vegar orðið að pólitísku þrætuepli. Það rekur Schmidt meðal annars til deilna sem gengið hafa á áður vegna umhverfismála eins og í kringum súrt regn, eyðingu ósonlagsins og mengunar í ám og vötnum. Þeir sem aðhyllist frjálshyggju hafi ekki getað sætt sig við þá staðreynd að markaðurinn hafi ekki sjálfur getað séð um að bæta upp neikvæð ytri áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda.

„Það hefur alltaf verið þessi hópur í Bandaríkjunum sem hefur verið svo uppfullur af kennisetningum hins frjálsa markaðar að hann hefur aldrei getað horfst í augu við að umhverfisvandamál séu vísbending um markaðsbrest og að markaðurinn sjái ekki um hlutina sjálfur á frábæran hátt. Í Evrópu er ekki sama menningarlega afstaðan til markaðarins sem myndi beinast gegn umhverfismálum,“ segir Schmidt.

Við þetta bætist að vinnslufyrirtækin í kolefnaeldsneytisiðnaði séu gríðarlega valdamikil í Bandaríkjunum og þau hafi varið óheyrilegum fjárhæðum í að kaupa stjórnmálamenn til fylgilags við sig. Annar angi sé sú staðreynd að umhverfismál hafi á sér menningarlegan blæ í hugum margra Bandaríkjamanna. Umhverfishyggju tengi menn við frjálslyndi íbúa í borgum á austur- og vesturströnd landsins sem stangist á við gildi þeirra sem búa inni í landinu.

Schmidt segist einnig telja að flest af því sem stjórnmálamenn gera til að vefengja loftslagsvísindamenn séu pólitískt leikrit. Afneitunin sé bundin við takmarkaðan en háværan hóp.

„Það eru nokkrir sem eru mjög háværir en svo er mikið af fólki sem hugsar að þetta sé ekki þeirra mál, það vill ekki blanda sér inn í það, það veit að þetta fólk er ruglað en það berst með straumnum þar til hann snýst. Það er mikið af fólki sem er nokkuð skynsamt í þessum málum, jafnvel í Repúblikanaflokknum, en núna er ekki tíminn fyrir það að láta heyra í sér. Þetta er meira pólitískt hugleysi en alger fáfræði,“ segir hann.

Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknarstofnunar NASA.
Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknarstofnunar NASA. Eggert Jóhannesson

Fyrri hlutar viðtals mbl.is við Gavin Schmidt

Jörðin verður annar staður

Koldíoxíðið er brennuvargurinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert