Olíuinnflutningur drægist saman um 40%

Rafmagnsbíll á bílasýningu í Genf.
Rafmagnsbíll á bílasýningu í Genf. AFP

Mögulegt væri að draga úr olíuinnflutningi um 40% og lækka eldsneytiskostnað breskra bifreiðaeigenda um meira en 200.000 krónur á ári ef notkun rafmagnsbíla eykst mikið á næstu árum. Hins vegar þarf að fjárfesta mikið í innviðum ef bílarnir eiga að verða fýsilegur kostur.

Þetta er á meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Econometrics gerði fyrir samtökin Evrópska loftslagssjóðinn (European Climate Foundation). Forsendur hennar eru þær að rafbílanotkun aukist mikið á næstu árum. Árið 2030 verði sex milljónir rafbíla á götum Bretlands og 23 milljónir árið 2050.

Með þessu móti væri hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum um 47% fyrir árið 2030. Einnig er stórminnkuð loftmengun talin leiða til fækkunar öndunarfærasjúkdóma sem metin er á meira en milljarð punda.

Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að fjárfesta í innviðum fyrir nýja tækni. Hleðslustöðvar eru enn tiltölulega fáar á Bretlandi og bifreiðaeigendur sem ekki hafa reynslu af því að aka rafmagnsbílum setja drægi bílanna enn fyrir sig.

Til mikils er hins vegar að vinna. Fyrir utan umhverfislega ávinninginn. Skýrsluhöfundar áætla að með rafbílavæðingunni myndi verg þjóðarframleiðsla Bretlands geta aukist um 2,4-5 milljarða punda fyrir árið 2030. Á bilinu 7.000-19.000 störf gætu einnig skapast.

Frétt The Guardian af áhrifum rafbílavæðingar Bretlands í framtíðinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert