Slæmt líkamlegt ástand barna með þroskahömlun

Sund er góð hreyfing fyrir unga sem aldna
Sund er góð hreyfing fyrir unga sem aldna mbl.is/Golli

Líkamlegt ástand barna með þroskahömlun er alls ekki gott og koma þau oftast verr út en jafnaldrar þeirra án þroskahömlunar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri íslenskri rannsókn.

Lítið er vitað um hreyfingu, holdafar og áhættuþætti fyrir ýmsum hjarta-, æða- og efnaskiptasjúkdómum á meðal barna með þroskahömlun, segir í grein sem birt er í Læknablaðinu en um er að ræða rannsókn sem Ingi Þór Einarsson, Erlingur Jóhannsson, Daniel Daly ogSigurbjörn Árni Arngrímsson gerðu.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að börn með þroskahömlun voru lágvaxnari og þéttvaxnari en almenn skólabörn. Drengir með þroskahömlun voru með meira mittismál en almennir skóladrengir en enginn munur fannst á stúlknahópunum.

Samkvæmt hlutfalli líkamsfitu greindist hærra hlutfall (41%) barna með þroskahömlun með offitu en almennra skólabarna (19%, p=0,006).

Ekkert barn náði ráðlagðri daglegri hreyfingu

Börn með þroskahömlun hreyfðu sig aðeins 24 mínútur á dag af miðlungs- til erfiðri ákefð en almenn skólabörn tæplega 60 mínútur. Ekkert barn með þroskahömlun náði ráðlagðri daglegri hreyfingu, á móti 40% hjá almennum skólabörnum.

Einungis 25% barna með þroskahömlun náðu úthaldsviðmiðum, á móti 75% (p<0,001) almennra skólabarna. Rúmlega 20% barna með þroskahömlun voru með of hátt mittismál, 34% með of háan blóðþrýsting, á milli 13 og 21% greindust með áhættuþætti í blóði og tæplega 7% með efnaskiptavillu, sem var í öllum tilvikum mun hærra algengi en hjá almennum skólabörnum.

Sjá nánar í Læknablaðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert