Hvað veist þú um klósettfræði?

Ákveðnar reglur gilda við migildin.
Ákveðnar reglur gilda við migildin. mbl.is/Kristinn

Öll dýrkum við postulínið en viljum sem minnst um það ræða. Klósettvenjur eru eflaust eins misjafnar og þær eru margar í heimahúsum en þegar kemur að sameiginlegri salernisaðstöðu, s.s. á vinnustöðum eða í skólum, gilda ákveðnar óskrifaðar reglur.

T.a.m. þykir ekki viðeigandi að spjalla á milli klósettbása og ekki má stilla sér upp við hliðina á öðrum manni við pissuskál sé hægt að komast hjá því. Merkilegt nokk hafa margar þessara óskrifuðu regla  auk hefða og venja á almenningssalernum verið rannsakaðar og hefur vefsíðan Science of Us tekið saman nokkrar áhugaverðustu rannsóknirnar. Eftirfarandi upplýsingar falla í mörgum tilvikum undir tilgangslausa þekkingu en ættu að geta verið áhugavert lesefni þegar náttúran kallar, ef ekki annað.

Hvar á að standa?

Karlmenn sem koma að þremur tómum klósettbástum fara til vinstri í 28% tilfella, í miðjuna í 40% tilfella og til hægri í 32% tilfella. Konur í sömu aðstæðum fara til vinstri í 34% tilfella, í miðjuna í 29% tilfella og til hægri í 37% tilfella. Sé básinn til vinstri upptekinn fara karlmenn til hægri í 73% tilvika og konur gera slíkt hið sama í 65% tilvika.

Sé fólki gefið val á milli þriggja alveg eins valkosta er nokkuð öruggt að sá í miðjunni verði fyrir valinu. Klósettbásar og pissuskálar eru hinsvegar sjaldnast nákvæmlega eins og aðkoman er oft ólík. Karlmenn eru á heildina litið líklegri til að taka þann kost sem er næstur hurðinni en konur færa sig frekar lengra frá henni.

Að kasta af sér vatni

Samkvæmt rannsókn frá árinu 1963 beita karlmenn kurteisislegu athyglisleysi þegar þeir mæta vinum á salernin: „Næg sýnileg athugli til að sýna fram á að sýna að viðkomandi veit af nærveru hins...á meðan að á næsta augnablikinu dregur maður athygli sína frá viðkomandi til að tjá að hann sé ekki skotspónn sérstakrar athygli.“ Að mæta einhverjum við pissuskál kallar hinsvegar á hunsun þar sem sá sem kastar af sér þvagi lætur sem vinurinn sé aðeins hluti af umhverfinu og ekki augnaráðsins virði. Í rannsókninni segir að samtöl séu leyfð svo lengi sem þau líti út fyrir að vera beint að veggnum eða engum sérstökum einstaklingi.

Ótal óskrifaðar reglur eru til um hegðun í kringum þvagskálar en þrjár þeirra þykja mikilvægari en aðrar samkvæmt fræðimönnum:

  1. Ekki skal staðið við hlið annars manns við migildið.
  2. Ekki skal horft á aðra menn við migildi og samræðum skal haldið í lágmarki.
  3. „Ef þú hristir hann oftar en tvisvar ertu að fitla við hann.“

Sterkar venjur í kringum þvagskálar gætu verið ástæðan fyrir því að karlmenn þjást af fælni við almenningssalerni í mun meira mæli en konur. Því nær sem karlmaður er næsta manni því erfiðara reynist honum að eiga þvaglát. Í einni rannsókn fylgdust vísindamenn með röð þriggja þvagskála og tóku tímann sem það tók karlmennina að hefja að kasta af sér vatni. Þegar þeir voru einir var meðaltíminn 4,9 sekúndur. Þegar ein skál var á milli var meðaltíminn 6,2 sekúndur en þegar staðið var við hlið annarra tók það karlanna að meðaltali 8,2 sekúndur að hefja leikinn.

Ýmislegt annað hefur verið rannsakað í tengslum við þvagskála og má meðal annars nefna að skotmörk í þvagskálum minnka „sull“ um allt að 80% . Einnig hefur komið í ljós að karlmenn sem spíta í pissuskálar áður en þeir hafa þvaglát vilja líta út fyrir að vera sterkari og merkja sér svæði. Þá eru konur líklegri til að lauma sér inn á karlaklósett en öfugt en hver sá sem hefur reynt að fara á kvennaklósettið á skemmtistað veit nákvæmlega afhverju það stafar.

Klósettbásakurteisi

Samkvæmt rannsókn sem Science of Us segir sígilda geta salernisgestir kastað eign sinni á hvaða auða bás sem er og þegar þeir loka hurðinni verður básinn að tímabundnum en persónulegum felustað viðkomandi. Karlmenn mega ekki spjalla á milli bása en samkvæmt höfundum rannsóknarinnar gildir önnur regla fyrir konur þar sem básinn breytist í einskonar skriftastól.

Konur eyða að meðaltali tvisvar sinnum lengri tíma en karlar á klósettinu samkvæmt klósettsérfræðingnum Chuck Gerba en önnur rannsókn bendir til þess að konur séu 61,5 sekúndum lengur á salerninu en karlmenn. Konur eru hinsvegar almennt ekki hrifnar af því að setjast á almenningsklósett samkvæmt þeirri rannsókn. 85% kvenna bogra eða hokra yfir skálunum og aðeins 2% setjast beint á postulínið.

Samkvæmt Science of Us nota 75% einstaklinga símana sína á salerninu, 63% hafa svarað í símann á meðan, 41% hafa hringt úr símanum á meðan og 10% hafa verslað á netinu á meðan. Þó ólíklegt sé að þessar tölur eigi fyllilega við um almenningssalerni er ljóst að allt að því einn af hverjum sex farsímum gæti verið búinn saurgerlum. Þá má þess geta að 8% einstaklinga hafa borðað á salerninu.

 Krassað á klósettinu

Fræðimaðurinn Alfred Kinsey er einn þeirra sem hefur rannsakað veggjakrot á klósettbásum en hann komst að því að 86% krass á karlaklósettum væri erótískt í eðli sínu samanborið við aðeins 25% krass á kvennaklósettum. Sambærileg rannsókn á síðari árum hefur sýnt að aukið kynfrelsi kvenna hefur ekki sýnt sig í auknu kynferðisklósettkrassi.

75% þess krassefnis sem finna má á karlaklósettum er af samkynhneigðu tagi en krass á karlaklósettum er einnig líklegra til þess að gera lesandanum tilboð frekar en að vera einstök teikning og er einnig líklegra til að innihalda skammstöfun krassarans. Veggjakrot á kvennaklósettum er rómantískara, gagnvirkara en einnig mun líklegra til að móðga keppinauta með áherslu á útlit og framhjáhald.

Hvernig notar þú klósettpappír

Konur nota mun meiri klósettpappír en karlar og nota að meðaltali sjö klósettpappírblöð við hverja heimsókn. Tvöfalt fleiri einstaklingar brjóta klósettpappírinn saman frekar en að krumpa hann.

72% hengja klósettpappírsrúllur þannig að lausi endinn sé fyrir framan rúlluna en 28% leyfa endanum að hanga fyrir aftan hana samkvæmt rannsókn á vegum Cottonelle en önnur rannsókn bendir til að hlutfalið sé nær 68% og 32%. Ýmislegt bendir til að áherslur fólks í þessum málum séu tekjutengdar þar sem fólk með hærri laun var líklegra til að vilja hafa endann fyrir framan en lágtekjufólk var líklegra til að vilja láta endann hanga aftan á.

Hvað er hreint?

Ekki er allt sem sýnist þegar kemur að hreinlæti á almenningssalernum. Samkvæmt ýmsum rannsóknum gæti verið slæm hugmynd að þvo sér með sápu úr sameiginlegum dunkum þar sem einn fjórði þeirra sé svo hlaðinn saurgerlum og bakteríum að hendurnar gætu orðið skítugri en ella fyrir vikið. Þá má þess geta að breskir rannsóknarblaðamenn fundu leifar af kókaíni í 92% skiptiborða fyrir ungabörn á almenningssalernum.

Konur eru mun duglegri við að þrífa á sér hendurnar eftir klósettferðir en karlar en karlmenn sem tilheyra minnihlutahópum þvo sér um hendurnar til jafns við hvítar konur. Veggspjöld sem minna á handþvott virðast virka á konur en síður á karla. Í einni rannsókn sem gerð var jókst handþvottur kvenna úr 61% í 97% eftir að slíkri merkingu var komið fyrir en minnkaði úr 37% í 35% meðal karla.

Öll ljúgum við hinsvegar um hversu oft við þvoum á okkur hendurnar, hvors kyns sem við erum, en þó eru aðeins 56% okkar sem halda því fram að við þvoum þær í hvert skipti. Það skiptir kannski litlu þegar upp er staðið því aðeins er talið að um 5% fólks geri það nægjanlega vel til að drepa bakteríur. Á móti kemur að margir nota hendurnar eins lítið og mögulegt er og sturta niður með fótunum, vefja hurðarhúna í pappír, loka hurðum með afturendanum og nota olnboga hvenær sem mögulegt er.

Pappírsþurrkur eru hreinlegasta leiðin til að þurrka hendurnar. Rannsóknir sýna að handþurrkarar þeyta bakteríum út um allt og í einni rannsókn var bakteríumagn í lofti 27 sinnum meira nálægt handblásurum en við pappírsþurrkuskammtara.

Lestu einnig: Listin að hafa hægðir í vinnunni

Konur nota umtalsvert meiri klósettpappír en karlar.
Konur nota umtalsvert meiri klósettpappír en karlar. Ljósmynd/Eyþór Árnason
Sturtar þú niður með fótunum?
Sturtar þú niður með fótunum?
Bankastræti 0 er líklega eitt þekktasta almenningsklósett Íslands.
Bankastræti 0 er líklega eitt þekktasta almenningsklósett Íslands. mbl.is/Þórður
Hversu hreinir ætli klósettturnarnir séu?
Hversu hreinir ætli klósettturnarnir séu? mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert