Ógurlegt auga ójarðnesks storms

Satúrnus er af mörgun talin tignarlegasta reikistjarnan í sólkerfi okkar …
Satúrnus er af mörgun talin tignarlegasta reikistjarnan í sólkerfi okkar enda skartar hann glæsilegum hringjum. AFP

Augað í storminum sem geisar á norðurpól reikistjörnunnar Satúrnusar er um 2.000 kílómetrar að þvermáli, rúmlega vegalengdin frá Reykjavík til London og vindhraðinn er fjórfaldur fellibylsstyrkur á jörðinni. Vísindamenn við Cassini-geimfarið hafa nú sett saman myndskeið sem sýnir storminn ógurlega.

Vindhraðinn er mestur í hringjunum næst auganu en þar nær hann 150 metrum á sekúndu. Það er fjórfalt meiri styrkur en miðað er við í skilgreiningum á fellibyljum á jörðinni. Augað sjálft er um það bil fimmtíu sinnum stærri en dæmigerð augu jarðneskra fellibylja. Sambærilegur fellibylur geisar á suðurpól Satúrnusar.

Myndirnar eru á meðal þeirra fyrstu sem Cassini-geimfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA náði af upplýstum norðurpólnum. Þegar farið kom fyrst að reikistjörnunni var vetur á norðurhvelinu og var það hulið myrkri.

Frétt á vef Cassini-leiðangursins hjá NASA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert