Geimskotið gekk klakklaust

Progress M-28M þegar geimfarinu var skotið á loft í Kasakstan …
Progress M-28M þegar geimfarinu var skotið á loft í Kasakstan í morgun. AFP

Rússneskri birgðaflutningageimflaug var skotið á loft án vandkvæða frá Kasakstan áleiðis til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í morgun. Þrjú birgðaflutningaflug til geimstöðvarinnar hafa farist á undanförnum mánuðum, þar á meðal rússneskt geimfar af sömu gerð í lok apríl.

Um þrjú tonn af vistum og rannsóknartækjum eru um borð í Progress M-28M-geimfarinu sem skotið var á loft með Soyuz-eldflaug frá Baikonur-skotpallinum í morgun. Það á að leggjast að Alþjóðlegu geimstöðinni á sunnudag.

Geimskotið er það fyrsta sem ætlað er að flytja birgðir til geimstöðvarinnar frá því að Progress-geimfar glataðist í vor. Stjórnendur þess misstu samband við það skömmu eftir geimskotið og brann það upp í lofthjúpi jarðar 8. maí.

Einnig eru aðeins nokkrir dagar liðnir frá því að birgðaflutningaskip bandaríska geimferðafyrirtækisins SpaceX sprakk aðeins tveimur mínútum eftir að því var skotið á loft. Þá tapaði fyrirtækið Orbital Sciences öðru birgðaflutningaskipi í október. 

Sömu Soyuz-eldflaugarnar eru notaðar til að koma mönnum út í geim. Þess vegna var næstu mönnuðu ferð til geimstöðvarinnar frestað til 23. júlí eftir að Progress-geimfarið glataðist í vor. Upphaflega átti það að fara fram í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert