Fékk fullnægingar í gegnum fótinn

Fótablæti er vel þekkt fyrirbrigði en það sem kom fyrir …
Fótablæti er vel þekkt fyrirbrigði en það sem kom fyrir frú A er nokkuð óalgengara.

Margar konur upplifa aldrei fullnægingu og sumar fá svo margar að þær þurfa að leita sér læknisaðstoðar.

Sögur af tilefnislausum maraþonfullnægingum rata reglulega í fjölmiðla en New York Magazine rifjaði nýverið upp tilfelli 55 ára hollenskrar konu sem fékk fullnægingar í gegnum fótinn fimm til sex sinnum á dag. Hún upplifði sumsé sömu tilfinningar í líkamanum og þegar hún fékk fullnægingu á meðan á kynlífi stóð, munurinn var sá að tilfinninginn átti upphaf sitt í fæti hennar.

Konan, sem læknar kölluðu frú A í grein í The Journal of Sexual Medicine árið 2013, fékk blóðeitrun og sýkingu í fótin síðla árs 2008. Dvaldist hún á spítala í þrjár vikur og féll m.a. í dá á þeim tíma. Þegar hún vaknaði fór hún að finna fyrir skrítnum fiðring í fætinum. Einu og hálfu ári síðar hóf hún að fá fótfullnægingarnar. Þegar konan leitaði fyrst til læknis vegna málsins fannst henni ástandið svo vandræðalegt að hún grét á meðan hún ræddi það og átti erfitt með að tala um það sem hrjáði hana.

Læknar lýstu vandamálinu sem raunverulegum fullnægingum í fæti konunnar, áþekkum fullnægingum í sníp eða leggöngum en styttri að lengd, um 5 til 6 sekúndur. Hún sagði læknunum að henni liði eins og fullnægingin ferðaðist frá vinstri fæti í gegnum kálfann að kynfærum hennar og þaðan upp í höfuð. Þegar hún fékk fullnægingu með hefðbundnum hætti fylgdi fullnæging í fætinum síðan á eftir.

Læknar komust að því að líklegasta skýringin væri að taugaþræðir í fæti konunnar hefðu skaddast vegna blóðsýkingarinnar. Svo vill til að taugar í fótum, skapabörmum, sníp og leggöngum tengjast allir sama hluta mænunnar og telja læknar að einhverskonar ruglingur hafi orðið innan líkamans þegar fóturinn tók að gróa. Heilinn hafi ekki skynjað muninn á fætinum og kynfærum konunnar og ákveðið að örvunin sem barst í gegnum fótinn væri í raun að koma í gegnum kynfærin og þýtt skilaboðin sem fullnægingu.

Vandamál frú A reyndist sem betur fer auðleyst því hún hætti að fá fótfullnægingar eftir að hafa gengist undir mænudeyfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert