12 ára með hærri greindarvísitölu en Hawking

Stephen Hawking fékk 160 stig, Lydia Sebastian 162 stig.
Stephen Hawking fékk 160 stig, Lydia Sebastian 162 stig. AFP

Hin tólf ára Lydia Sebastian tók Mensa-prófið í sumar og mældist með hærri greindarvísitölu en vísindamennirnir Albert Einstein og Stephen Hawking. 

Stúlkan fékk 162 stig á prófinu en Einstein og Hawking 160 stig. Stúlkunni finnst þó ekki rétt að bera hana saman við þessa miklu menn sem hafi afrekað miklu meira en hún. Mensa eru alþjóðleg samtök ofurgreindra. 

 „Ég var mjög stressuð fyrir prófinu og hélt að það yrði mjög erfitt. En þegar ég byrjaði á því fannst mér það heldur auðveldara en ég bjóst við,“ segir Sebastian í samtali við CNN. Hún segist ekki hafa ákveðið hvað hún vilji takast á við þegar hún lýkur skólagöngu sinni. Þó hallast hún að því að læra meiri stærðfræði, það eitt af uppáhalds fögum hennar.

„Ég held að það sé ekki hægt að bera mig saman við svo mikla menntamenn og Albert Einstein og Stephen Hawking. Þeir hafa afrekað svo mikið. Ég held að það sé ekki rétt,“ segir hún í samtali við CNN.

Hér má sjá viðtal CNN við Lydiu Sebastian. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert