Google maps án nettengingar

Uppfærslan er fyrst um sinn aðeins fyrir Android stýrikerfi en …
Uppfærslan er fyrst um sinn aðeins fyrir Android stýrikerfi en Google ætlar að gefa út iOS útgáfu fljótlega. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Tæknifyrirtækið Google hefur uppfært kortaforritið sitt fyrir Android stýrikerfi þannig að notendur geta nú hlaðið niður ákveðnum svæðum og notað kortið þrátt fyrir að vera ekki tengdir í gegnum 3G eða 4G tengingar.

Uppfærslan er sögð nýtast best á nýmarkaðssvæðum þar sem samband væri grisjótt og fyrir ferðamenn sem væru að heimsækja staði sem væru utan eigin þjónustusvæðis. Með þessu móti gætu þeir sparað stórar upphæðir.

Sérfræðingar hafa sagt þetta stórt jákvætt skref fyrir kortaforritið, en meðal annars verður hægt að leita að staðsetningum, fyrirtækjum, opnunartímum og símanúmerum fyrirtækja meðan símtækið er ekki nettengt. Helstu gagnrýnisraddir beinast að því að á mörgum ódýrari símum sé lítið geymslupláss og því geti það kostað talsvert pláss að niðurhala stórum svæðum. Sem dæmi segir Google að London og úthverfi þess taki um 380 megabæti og San Francisco svæðið í heild um 200 megabæti.

Enn hefur bara verið tilkynnt um útgáfa Android uppfærslunnar, en Google segir að iOS útgáfan komi „mjög fljótlega.“

Í frétt BBC er haft eftir Amanda Bishop, vörustjóra hjá Google, að vinna við verkefnið hafi staðið yfir í um tvö til þrjú ár. Segir hún að Google Maps hafi lengi vel verið hægt eða ónothæft þegar netsamband var óstöðugt. Segir hún að tími skjáskota og annarra krókaleiða til að nýta sér forritið á slíkum svæðum sé nú liðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert