Landakort á netinu hlutskarpast

Verðlaunahafar ásamt formanni dómnefndar og rektor. Frá vinstri: Kristinn Andersen, …
Verðlaunahafar ásamt formanni dómnefndar og rektor. Frá vinstri: Kristinn Andersen, formaður dómefndar, Freyr Sverrisson, Sigurður Brynjólfsson, Emily Diana Lethbrigde, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Hildur Sigurðardóttir, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Landakort á netinu, sem hefur að geyma kortlagningu allra staða sem koma fyrir í Íslendingasögunum, varð hlutskarpast í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2015 sem afhent voru í gær.

Tvö önnur verkefni voru verðlaunuð en þau snúa annars vegar að þróun aðferðar við ræktun þörunga sem nýtast til framleiðslu á andoxunarefnum og hins vegar þróun stuðnings- og meðferðarþjónustu fyrir foreldra sem glíma við erfiða líðan vegna þeirra breytinga sem barneignir hafa í för með sér, samkvæmt tilkynningu frá HÍ.

Samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands hefur verið haldin með einum eða öðrum hætti í nærri tvo áratugi og er markmið hennar að hvetja starfsmenn og stúdenta til að þróa áfram hugmyndir og rannsóknarniðurstöður sem hagnýta má samfélaginu til góða. Að þessu sinni bárust 12 hugmyndir í samkeppnina frá flestum fræðasviðum skólans. Þrenn verðlaun voru veitt að þessu sinni, en verðlaunafé í samkeppninni er tvöfalt meira en á síðasta ári.

Fyrstu verðlaun að upphæð tvær milljónir króna hlaut verkefnið „Icelandic Saga Map“. Það er hugarfóstur Emily Diönu Lethbridge, nýdoktors við Miðaldastofu Háskóla Íslands, en ásamt henni hafa þau Trausti Dagsson, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Gísli Pálsson og Logi Ragnarsson unnið að verkefninu. Um er að ræða rafrænt kort sem öllum er aðgengilegt á netinu þar sem textar allra Íslendingasagnanna eru kortlagðir, hnitsettir og tengdir landakorti. Kortið er afrakstur fimm ára rannsóknarvinnu á miðaldabókmenntasögu Íslands.

Önnur verðlaun hlýtur verkefnið „Aðferð við að þróa seltukæra þörunga til vaxtar í sjó og aukinnar framleiðslu á andoxunarefnum“. Að baki verkefninu standa Sigurður Brynjólfsson, Weiqi Fu, Freyr Sverrisson og Kristófer Þór Magnússon. Verkefnið felst í því að þróa seltukæra þörunga þannig að þeir geti vaxið í vatni með lægra seltuinnihaldi en venjulega, það er í sjó. Með þessu móti er hægt að draga úr kostnaði og losun óæskilegs úrgangs við framleiðsluna. 

Þriðju verðlaun hlaut verkefnið „Barneignir og erfiðar áskoranir. Þróun meðferðarþjónustu fyrir ungt fólk er tekst á við lífsbreytingar og erfiðar áskoranir vegna barneignareynslu“. Að verkefninu stendur Hildur Sigurðardóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og ljósmóðir hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hildur vinnur að þróun mælitækja sem kanna annars vegar viðhorf kvenna til brjóstagjafar og hins vegar til fæðingarinnar sjálfrar, svo sem fæðingarótta og áfallastreitueinkenna. Auk þess er unnið að mælitæki til að meta lífsgæði foreldra sem takast á við ófrjósemi og meðferð sem tengist henni. Jafnhliða þróun á mælitækjunum er þróuð stuðnings- og meðferðarþjónusta fyrir mæður og foreldra sem glíma við erfiða líðan vegna þeirra lífsbreytinga sem barneignir hafa í för með sér.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en síðastnefndu aðilarnir leggja sigurvegurum m.a. til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert