Loka ekki á Pirate Bay í Svíþjóð

Sænskir dómstólar töldu ekki rétt að loka aðgangi að Pirate …
Sænskir dómstólar töldu ekki rétt að loka aðgangi að Pirate Bay. Hér á landi hafa dómstólar þó ákveðið að gera það. Skjáskot af Pirate Bay

Eftir að hafa skoðað mál deilisíðunnar Pirate Bay í tæplega mánuð ákvað héraðsdómstóll í Stokkhólmi að eigendur höfundarvarins efnis gætu ekki látið netþjónustufyrirtækið Bredbandsbolaget loka á heimasíðu Pirate Bay. Í niðurstöðu dómsins kom fram að þjónusta Bredbandsbolaget ætti ekki þátt í meintum brotum á lögum um höfundarvarið efni sem sumir notendur gætu hafa framið.

Lokað er fyrir Pirate Bay deilisíðuna hjá fjölmörgum netþjónustufyrirtækjum í Evrópu, meðal annars hér á Íslandi. Talsmenn rétthafa hafa hingað til gert sér vonir um að dómstólar í heimalandi Pirate Bay myndu á endanum hindra aðgang að henni þar, en þessi niðurstaða er bakslag í þá baráttu. Greint er frá málinu á sænska vefnum The Local.

Málsóknin var höfðuð af afþreyingarrisunum Universal music, Sony music, Warner music, Nordisk Film og sænsku kvikmyndasamtökunum. Í kröfu þeirra kom fram að Bredbandsbolaget ætti að vera ábyrgt fyrir höfundarréttarbroti viðskiptavina sinna. Dómstóllinn var því aftur á móti ekki sammála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert