Microsoft kærir alríkisstjórnina

Satya Nadella, forstjóri Microsoft.
Satya Nadella, forstjóri Microsoft. AFP

Microsoft kærði í dag alríkisstjórn Bandaríkjanna fyrir leynilegar réttartilskipanir sem heimila stjórnvöldum að lesa tölvupóst einstaklinga. Microsoft segir tilskipanirnar brjóta gegn stjórnarskrá landsins.

„Microsoft leggur þessa kæru fram vegna þess að viðskiptavinir þess hafa rétt á að vita hvenær ríkisstjórnin fær réttarheimild til þess að lesa tölvupóst þeirra, og Microsoft hefur rétt á að geta sagt þeim frá því,“ sögðu lögmenn Microsoft þegar kæran var lögð fram í alríkisrétti í Seattle, nærri höfuðstöðvum fyrirtækisins.

Löggjöf þar vestra gerir dómstólum kleift að skipa tölvupóstveitum að halda leyndum tilskipunum um að reiða fram gögn á grundvelli þess að „ástæða sé til þess að halda“ að upplýsingar þess efnis gætu skaðað rannsóknarhagsmuni. Þetta er sagt of víðtækt orðalag í lögsókn fyrirtækisins.

Dregur úr trausti á bandarískum netveitum

Netfyrirtæki hafa í nokkurn tíma haft horn í síðu leynilegra rannsóknarheimilda sem þessara, sem þau segja draga úr traustu á bandarískum tæknifyrirtækjum og troða fótum undir réttindi borgara. Þetta er sagt sérstaklega viðkvæmt á meðan sú þróun á sér stað að meira og meira af gögnum færast af staðbundnum tölvuþjónum yfir í „skýlausnir“ á miðlægum gagnagrunnum.

„Þróunin yfir í skýið breytir ekki væntingum fólks til friðhelgi einkalífsins og ætti ekki að breyta gundvallar skilyrðum stjórnarskrárinnar um að ríkisstjórnin verði - með fáum undantekningum - að tilkynna það þegar leitir fara fram og gögn eru haldlögð,“ segir í bloggfærslu frá yfirlögmanni Microsoft, Brad Smith.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert