Myrkur máni við Makemake

Makemake og tunglið MK2.
Makemake og tunglið MK2. NASA/ESA

Lítið og dökkt tungl hefur fundist við dvergreikistjörnuna Makemake í Kuipersbeltinu. Makemake er næst bjartasta útstirnið í sólkerfinu á eftir Plútó en það var Hubble-geimsjónaukinn sem kom auga á tunglið sem gengur á braut um það. Tunglið getur veitt mikilvægar upplýsingar um Makemake.

Tunglinu hefur til bráðabirgða verið gefið heitið S/2015 (136472) 1 og gælunafnið MK2, að því er kemur fram í frétt á Stjörnufræðivefnum. Tunglið er í um 19000 km fjarlægð frá Makemake, innan við 300 km í þvermál og meira en 1300 sinnum daufara en Makemake.

Makemake er einn fjölda íshnatta í Kuipersbeltinu sem hefur að geyma frosnar leifar frá myndun sólkerfisins fyrir tæplega 4,6 milljörðum ára. Hubble var beint að dvergreikistjörnunni í apríl í fyrra til að reyna að finna tungl á braut um hana. Í ljós kom lítið tungl, innan við 300 km í þvermál, með mjög dökkt yfirborð og á rönd frá jörðu séð svo það hverfur auðveldlega í birtu Makemake sem skýrir hvers vegna tunglið fannst ekki fyrr.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að uppgötvun á tunglum gefur mikilvægar upplýsingar um dvergreikistjörnur. Með því að mæla umferðartíma tunglanna geta stjörnufræðingar reiknað út massa kerfisins og þannig fengið upplýsingar um þróun þess, myndun og efnasamsetningu.

Sé tunglið á hringlaga braut hefur það líklega orðið til í kjölfar áreksturs milli Makemake og annars hnattar. Sé tunglið hins vegar á breiðri, sporöskjulaga braut er líklegra að Makemake hafi fangað það.

Frétt á Stjörnufræðivefnum um tungl Makemake

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert