Dvergpláneta finnst í sólkerfinu

Nýja dvergplánetan er 18. sinnum smærri en jörðin sem sést …
Nýja dvergplánetan er 18. sinnum smærri en jörðin sem sést hér á mynd. AFP

Sjaldgæf „dvergpláneta“ sem er 18 sinnum smærri en jörðin hefur fundist utarlega í sólkerfinu, langt frá Neptúnus sem er fjarlægasta reikistjarnan frá sólinni.

Plánetan hefur verið kölluð RR245 og er ísilögð. Hún er núna staðsett um 9,7 milljarða kílómetra frá sólinni, sem er 65 sinnum lengra í burtu frá sólu en jörðin.

„Sporbaugur hennar er afar sporöskjulaga og þegar hún er lengst í burtu er fjarlægðin 19 milljarðar kílómetra frá okkar stjörnu,“ sagði stjörnufræðingurinn Jean-Marc Petit hjá rannsóknarstofnuninni CNRS í Frakklandi.

Aðeins nokkrar hafa uppgötvast

Dvergplánetur eru smærri en venjulegar plánetur og eru mun lengur að ferðast í kringum sólina. Á meðal ferðafélaga þeirra eru smástirni.

Talið er að tugir dvergpláneta fyrirfinnist í sólkerfi okkar en aðeins nokkrar hafa verið uppgötvaðar til þessa, þar á meðal Eris, Ceres og Plútó. Sú síðastnefnda hefur frá árinu 2006 verið skilgreind sem dvergpláneta eftir að hafa verið ein af reikistjörnunum fram að því.

Frétt mbl.is: Hnötturinn Plútó ekki lengur skilgreindur sem reikistjarna

RR245 sást fyrst í febrúar á þessu ári. Talið er að hún sé um 700 kílómetrar í þvermál. Til samanburðar er jörðin 12.700 kílómetrar í þvermál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert