Philae komin í leitirnar

Nærmynd af Philae á yfirborði halastjörnunnar. Rosetta tók hana úr …
Nærmynd af Philae á yfirborði halastjörnunnar. Rosetta tók hana úr 2,7 km fjarlægð á föstudag. ESA/Rosetta/MPS for OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Eftir tæplega tveggja ára leit er geimfarið Philae sem lenti á yfirborði halastjörnu árið 2014 loks fundið. Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) komu auga á litla vélmennið á nýjum myndum frá móðurfarinu Rosettu sem er nú á lokaspretti leiðangurs síns.

Samband glataðist við Philae um sextíu klukkustundum eftir að geimfarið lenti á yfirborði 67P/Churyumov-Gerasimenko í nóvember fyrir tveimur árum. Lendingin hafði verið harkalegri en menn ætluðu og endaði Philae upp við klettavegg sem kom í veg fyrir að hægt væri að hlaða rafhlöður hennar með sólarljósi.

Ekki var vitað hvar Philae var nákvæmlega á yfirborðinu og höfðu ýmsar tilraunir til þess að koma auga á farið engum árangri skilað. Örlítið lífsmark greindist hjá Philae fyrr á þessu ári þegar halastjarnan var sem næst sólinni á sporbraut sinni.

Það var þessi mynd sem afhjúpaði staðsetningu Philae. Farið hvílir …
Það var þessi mynd sem afhjúpaði staðsetningu Philae. Farið hvílir í skugga lengst til hægri á myndinni, rétt fyrir ofan miðju. ESA/Rosetta/MPS for OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Hjálpar til við túlka gögnin sem Philae safnaði

Móðurfarið Rosetta hefur verið að nálgast yfirborð halastjörnunnar undanfarið en til stendur að ljúka leiðangri þess með því að lenda því síðar í þessum mánuði. Hefur það sent sífellt skýrari myndir af yfirborðinu til baka eftir því sem yfirborðið stækkar fyrir linsu myndavélarinnar. Rosetta er nú aðeins í örfárra kílómetra fjarlægð frá yfirborðinu.

Vísindamenn ESA hafa nýlokið við að vinna nýjustu myndirnar frá Rosettu sem bárust til jarðar um helgina og komu þeir þá auga á lendingarfarið knáa. Enginn vafi leiki á að þar sé Philae á ferð, „það er dagsljóst,“ segir einn þeirra við breska ríkisútvarpið BBC. Þar sést geimfarið skorðað í skugga undir hengju.

Frétt mbl.is: Philae svaraði ekki kallinu

Rosetta hafði áður skoðað svæðið þar sem Philae fannst á endanum. Leitin skilaði hins vegar ekki afgerandi niðurstöðum þótt grunur léki á að eitthvað sem sást á myndunum gæti verið Philae. Munurinn nú er að Rosetta er nær halastjörnunni og árstíðir á henni hafa breyst þannig að meiri birta berst á svæðið en áður.

„Þegar það er aðeins mánuður eftir af Rosettuleiðangrinum erum við svo glöð að hafa loksins myndað Philae og að sjá hana í svona ótrúlegum smáatriðum,“ segir Cecilia Tubiana sem starfar við Osiris-myndavél Rosettu.

Fundurinn getur haft þýðingu fyrir greiningu á gögnunum sem Philae sendir aftur, því með því að þekkja staðsetningu lendingarfarsins geta vísindamennirnir betur túlkað þau.

Frétt BBC

Frétt á vef ESA um fundinn

Nærmyndin með skýringum.
Nærmyndin með skýringum. ESA/Rosetta/MPS for OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert