Röddin stýrir næstu byltingu

Notkun raddarinnar mun bylta því hvernig fólk notar tölvur og snjalltæki á næstu árum. Framfarir eru örar í þessum geira og stærstu tæknifyrirtæki heims stefna í þessa átt að sögn Guðmundar Hafsteinssonar, sem stýrir vörustjórnun hjá Google, en hann flutti erindi um efnið á haustráðstefnu Advania.

Guðmundur, sem nam rafmagnsverkfræði hjá Háskóla Íslands og er með MBA frá MIT, hefur komið víða við í Sílikondal. Í fimmtán ár hefur hann starfað hjá Siri-fyrirtækinu sem var keypt af Apple. Síðar stofnaði hann svo fyrirtæki sem var keypt af Google og þar er hann nú með starfstitilinn director of product management og vinnur að verkefni sem kallast Google Assistant.

mbl.is ræddi við hann um hvernig raddgreining og raddstýring mun aukast á næstu árum, en Guðmundur segir það mikilvægast hvernig tæknin muni einfalda að framkvæma hluti sem nú þegar er oft hægt að gera með öppum í símum og nefnir sem dæmi að panta pítsur eða stýra ljósastillingum. Slíkt sé of flókið að gera í gegnum símann til að raunverulegt hagræði sé af en með raddstýringu sé verkefnið orðið einfaldara en gömlu aðferðirnar, það er að hringja og panta pítsu eða standa upp og ýta á rofann.

Þar sem sífellt fleiri tæki tengist netinu, þróun sem kölluð er internet hlutanna (e. The Internet of Things), muni möguleikarnir aukast hratt og talar Guðmundur um þriðju tölvubyltinguna í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert