Öfugsnúnir loftslagsrannsakendur gripnir

Mennirnir tveir telja sig hafa útbúið líkan til að reikna …
Mennirnir tveir telja sig hafa útbúið líkan til að reikna út hitastig á yfirborði bergreikistjarna út frá aðeins tveimur breytum. mbl.is/EPA

Tveir vísindamenn birtu grein um rannsóknir sem þeir töldu sýna að hnattræn hlýnun væri afurð sólarinnar og andrúmsloftsins en ekki aðgerða manna. Þegar betur var að gáð reyndist lítill fótur fyrir hugmyndum þeirra og að sama skapi nöfnunum sem þeir gáfu upp.

Þeir Den Volokin og Lark ReLlez voru skráðir höfundar greinar sem birtist í tímaritinu Advances in Space Research í ágúst í fyrra. Þar færðu þeir rök fyrir stærðfræðilegri nálgun sem hægt væri að nota til að reikna út meðalhita á yfirborði bergreikistjarna út frá aðeins tveimur breytum. Annars vegar útgeislun sólstjörnunnar og hins vegar loftþrýstingi við yfirborð þeirra. Í grunninn væri þetta sambærilegt við hvernig háþrýstiloft kveikir í eldsneyti í dísilvélum.

Reyndist líkan þeirra Volokin og ReLlez á rökum reist þýddi það að útgeislun sólarinnar og lofthjúpur jarðarinnar yllu hnattrænni hlýnun en ekki losun manna á gróðurhúsalofttegundum. Fullyrtu þeir að líkanið virkaði fyrir bergreikistjörnurnar í sólkerfinu okkar, þar á meðal jörðina.

Að minnsta kosti einn hængur var þó á greininni. Hvorki Den Volokin né Lark ReLlez voru raunveruleg nöfn höfundanna. Greinin var dregin til baka úr tímaritinu með þeim orðum að það hafi verið samkomulag ritstjóra þess og höfundanna og kæmi efni rannsóknarinnar ekki við.

Hefðu hafnað þeim algerlega

Í ljós kom að raunverulegir höfundar greinarinnar voru þeir Ned Nikolov og Karl Zeller, starfsmenn bandarísku skógarþjónustunnar. Nikolov er eðlisfræðingur en Zeller veðurfræðingur. Þeir urðu alræmdir fyrir aðra rannsókn sem þeir birtu árið 2011 sem fjallaði einnig um samband hitastigs og loftþrýstings og fór á mikið flug innan samfélags loftslagsafneitara á sínum tíma. Hún hefur verið hrakin á afgerandi hátt.

Það var vegna stimpilsins sem þeir félagar töldu sig hafa fengið af þeirri rannsókn sem þeir töldu sig ekki geta notið sannmælis fyrir nýju rannsóknina og kusu þeir því að blekkja ritstjóra vísindaritsins.

„Ritstjórar tímarita og ritdómarar myndu hafna handriti okkar algerlega eftir að hafa gúgglað nöfnin okkar og lesið umræður á netinu,“ segir Nikolov við Washington Post sem fjallar ítarlega um málið.

Dulnefnin hafi ekki verið sérlega margslungin. Þau séu aðeins nöfn þeirra rituð aftur á bak. Nikolov telur sjálfan sig ekki vera loftslagsafneitara. Hann hafi hins vegar byrjað að fyllast efasemdum um viðtekin loftslagsvísindi eftir að tölvupóstum loftslagssérfræðinga var stolið og völdum köflum var lekið til að láta líta út fyrir að þeir stæðu í blekkingum og þögguðu niður andófsraddir árið 2009. Ítrekaðar rannsóknir hafa sýnt að þær ásakanir áttu við engin rök að styðjast.

Nikolov tók hins vegar til við að skoða hitastig jarðar með eigin aðferðum og líkanið var niðurstaða vinnu hans og Zeller.

„Það leikur enginn vafi á, að reyna að birta niðurstöður rannsókna sem samræmast ekki viðurkenndum kenningum eða hefðbundinni hugsun er vandasamt í núverandi heimi pólitískrar rétthugsunar í fræðaheiminum,“ segir Nikolov sem fullyrðir að annað vísindarit sé nú með greinina til skoðunar.

„Órakennd sjálfsupphafning“

Aðrir fræðimenn draga þó niðurstöður Nikolov og Zeller verulega í efa. David Grinspoon, stjörnulíffræðingur við Reikistjörnuvísindastofnunina í Tuscon, segir við Washington Post að líkan fyrir hitastig reikistjarna út frá einföldum forsendum sé fullgilt rannsóknarefni. Grein Nikolov og Zeller virðist hins vegar hafa annað markmið.

Grinspoon segir að því fari fjarri að grein þeirra ógildi áratugalangar rannsóknir á loftslagi jarðar. Eins sé ýmislegt einkennilegt við vinnubrögð þeirra. Þannig hafi þeir félagar reiknað út loftþrýsting og hitastig á Mars þrátt fyrir að til hafi verið ítarlegar beinar athuganir á því um áratugaskeið. 

„Ef þeir hefðu ekki gert það hefði líkanið þeirra ekki passað svona vel,“ segir hann.

Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknarstofnunar NASA og sérfræðingur í loftslagslíkönum, gefur heldur ekki mikið fyrir vísindi þeirra Nikolov og Zeller. Hann var einn þeirra sem benti á að grein þeirra hefði verið dregin til baka á sínum tíma.

Í svari til Washington Post segir Schimdt rannsókn tvímenninganna dæmi um að gögn séu látin laga sig að þekktri kúrfu.

„Fullyrðingar höfundanna um að þeir séu að „ganga á skjön við hefðbundnar kenningar“ er aðeins órakennd sjálfsupphafning,“ segir Schmidt. 

Grinspoon sér þó einhvern ljósan blett á rannsókn Nikolov og Zeller. Líkan þeirra væri mögulega hægt að nýta til að slumpa á hitastig fjarreikistjarna út frá takmörkuðum upplýsingum. Leyndarhjúpurinn sem þeir hafi sveipað rannsókn sína sé hins vegar ekki vel til þess fallinn að skapa skoðanaskipti og umræður um efni hennar innan fræðasamfélagsins.

Umfjöllun Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert