Fundu 175 tonna gimstein

Steinninn er risastór og mjög verðmætur. Hann verður brotinn niður …
Steinninn er risastór og mjög verðmætur. Hann verður brotinn niður og notaður í skartgripi. Skjáskot af Telegraph

Námuverkamenn í Búrma fundu heimsins verðmætasta jaði, 175 tonna stein af þessari fágætu steintegund. Í frétt Telegraph um málið segir að steinninn sé talinn 140 milljóna punda virði, um 19 milljarða íslenskra króna. 

Námuverkamennirnir voru að grafa eftir fágætum steintegundum í námu í Kachin-héraði er þeir fundu steininn. Hann er um 2,7 metrar á hæð og 5 metrar að breidd. Aðeins einn stærri steinn af þessari tegund hefur fundist svo vitað sé og vó hann 250 tonn.

Jaði er grænleit steintegund sem oft er notuð í skartgripi og skrautmuni. Búrma er heimsins stærsti útflytjandi jaðis í heiminum. 

Í frétt Telegraph kemur fram að grjótið verði nú flutt til Kína og þar verði það brotið niður og úr því búnir til skartgripir og styttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert