Ekki ofurmáni heldur fullt tungl

Máninn verður fullur og fagur á mánudaginn.
Máninn verður fullur og fagur á mánudaginn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stærsta fulla tungl ársins 2016 verður næsta mánudag, 14. nóvember. Víða á netinu hefur það verður nefnt „ofurmáni“ vegna nálægðar sinnar við jörðina þennan dag. Þetta er nálægasta fulla tungl í 68 ár og verður það þá 356.523 km í burtu frá miðju jarðar. Tunglið verður fullt klukkan 13:52, tveimur og hálfri klukkustund eftir að tunglið er næst jörðinni. 

„Þrátt fyrir að tunglið verði nær okkur á þessum degi en það hefur verið er munurinn hins vegar ekki sjáanlega mikill á fullu tungli sem við sjáum vanalega og þessu sem verður á mánudaginn. Ég get líkt þessu við að halda á 10 krónu peningi í útréttri hendi og færa svo handlegginn um hálfan sentímetra. Vissulega er munur en hann er svo lítill að við greinum hann ekki endilega nema í samanburði,“ segir Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og bætir við: „Fólk á endilega að fara út og horfa á tunglið en það má ekki búast við að sjá eitthvað risavaxið tungl. Ég myndi segja að það verði jafn fallegt eins og alltaf.“ 

Hann vill ekki nota orðið „ofurmáni“ heldur hreinlega fullt tungl. Hann segir orðanotkunina til þess fallna að vekja ranghugmyndir. „Þetta er svipað og að segja að 16 tommu pítsa sé ofurpítsa við hlið 15 tommu pítsu. Við myndum aldrei gera það,“ segir Sævar Helgi.

Hann bendir á að í hverjum einasta mánuði er tunglið í svipaðri fjarlægt frá okkur en fólk tekur ekki eins vel eftir tunglinu og þegar það er til dæmis hálft. 

Hann bendir einnig á að á hverju ári eru 3 til 5 full tungl sem eru svona nálægt jörðinni. 

Sævar segir að þegar fullt tungl er að rísa, virki það stærra við sjóndeildarhringinn en þegar það er komið á loft. Tunglið er hins vegar alveg jafn stórt og þegar það er komið hátt á lofti. Það er heilinn sem platar okkur og lætur okkur halda að það sé stærra. „Fólk getur staðfest að um skynvillu sé að ræða með því að standa á haus þegar það er að rísa en þá skreppur það saman,“ segir Sævar. 

Samkvæmt langtímaveðurspá viðrar vel til að horfa á tunglið á Austurlandi og Vesturlandi. Rigningu er spáð á Suðurlandi og á suðvesturhorni landsins. 

Hér má sjá umfjöllun Stjörnufræðivefsins um fulla tunglið á mánudaginn. 

Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert