„Upphafið að endalokunum“

Nýjustu myndirnar sem geimfarið Cassini tók af Satúrnusi.
Nýjustu myndirnar sem geimfarið Cassini tók af Satúrnusi. Ljósmynd/NASA

Cassini-geimfarið hefur sent frá sér nýjar myndir frá Satúrnusi, en geimfarið heldur áfram ferðalagi sínu um sporbaug gasrisans. Það styttist hins vegar óðum í kveðjustund, en Cassini hefur rannsakað plánetuna frá árinu 2004.

Fram kemur á vef BBC, að Cassini, sem bandaríska geimvísindastofnunin (NASA), skaut á loft árið 1997, hafi hafið nýjan áfanga í leiðangri sínum umhverfis Satúrnus. Næstu níu mánuði mun geimfarið leika áhættuatriði á ferðalagi sínu, en þessum lokaáfanga mun ljúka þegar geimfarið kveður endanlega er það ferðast á ógnarhraða inn í lofthjúp Satúrnusar.

Nýju myndirnar sýna sexhyrnd óveðursský á norðurhveli hnattarins. Lokaáfanginn hófst 30. nóvember er Cassini hóf að ferðast á braut við hringi Satúrnusar. 

Talsmenn NASA segja að Cassini eigi eftir að senda frá sér fleiri myndir, m.a. nærmyndir af ytri hringjum plánetunnar og af smáum tunglum sem eru þar á sporbaug. Verður þetta í fyrsta sinn sem slíkar nærmyndir nást. 

„Þá er komið að því, þetta er upphafið að endalokum sögulegrar könnunar okkar á Satúrnusi,“ segir Carolyn Porco, sem hefur yfirumsjón með því myndefni sem berst frá Cassini.

„Við skulum láta þessar ljósmyndir – og þær sem koma í framhaldinu – minna okkur á það að við höfum tekið þátt í djörfu og spennandi ævintýri við mikilfenglegustu plánetu í sólkerfinu okkar.“

Frétt mbl.is: Cassini strýkur sér upp við hringina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert