Hyggst gera Note 7-snjallsíma óvirka

AFP

Suður-kóreski raftækjaframleiðandinn Samsung tilkynnti í dag að það hyggðist gera Galaxy Note 7-snjallsíma, sem hafa verið innkallaðir af öryggisástæðum í Bandaríkjunum, óvirka. Tilgangurinn væri að neyða eigendur þeirra að hætta að nota símana og skila þeim inn.

Fram kemur í frétt AFP að 93% þeirra snjallsíma sem innkallaðir hefðu verið í Bandaríkjunum hefðu skilað sér úr umferð en dæmi eru um að slíkir símar hafi annaðhvort sprungið eða kviknað í þeim. Símarnir voru upphaflega innkallaðir fyrr á þessu ári.

Samkvæmt tilkynningu frá Samsung verður uppfærsla send út síðar í þessum mánuði sem geri það að verkum að símarnir munu ekki hlaða sig. Eigendur þeirra munu því ekki geta notað þá. Fyrirtækið hefur innkallað 2,5 milljónir slíkra síma í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert