Ísland við toppinn í innviðum fjarskipta

4G sendum á landinu fjölgar jafnt og þétt. Þá eru …
4G sendum á landinu fjölgar jafnt og þétt. Þá eru Íslendingar efstir á lista yfir hlutfall heimila sem hafa aðgang að netinu.

Fjarskiptainnviðir Íslands eru þeir bestu í Evrópu og næst bestu á heimsvísu. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu sem stofnun Sameinuðu þjóðanna í upplýsinga- og fjarskiptatækni (ICT) tók saman um framþróun á fjarskiptavísitölu sem stofnunin heldur utan um.

Suður-Kórea er sem fyrr á toppi listans með 8,84 stig af 10 mögulegum. Ísland er þar rétt á eftir með 8,83 stig og fer fram úr Danmörku sem var áður í öðru sæti en er nú með 8,77 stig. Bæði Svíþjóð og Noregur ná líka á topp tíu listann, en þar eru einnig Sviss, Hong Kong, Bretland, Holland og Japan.

Meðal þess sem horft er til í skýrslunni er hlutfall tölvueignar og aðgangs að interneti. Þá er einnig skoðað hversu öflug fjarskiptanet eru til staðar í viðkomandi landi og hversu hagstætt verð sé á fjarskiptaþjónustu.

Þór Jes Þórisson, forstöðumaður tækniþróunar hjá Símanum, segir að hátt hlutfall tölvueignar og aðgangur að neti spili stórt hlutverk í stöðu Íslands á listanum. Þá sé einnig greiður aðgangur að ýmsum fjarskiptakerfum og bandbreidd hvers íbúa til útlanda mikil.

Efstu lönd í fjarskiptavísitölu ICT.
Efstu lönd í fjarskiptavísitölu ICT. Tafla/ICT

Sá liður sem hækkar mest milli ára var nettenging um farsímakerfi, en þeir liðir sem hamla því að Ísland nái efsta sæti eru styttri skólaganga hér á landi en almennt gengur og gerist í löndunum í kring og einnig að hlutfallslega færri séu í háskóla hér. Þetta eru allt liðir sem teknir séu til skoðunar í fjarskiptavísitölunni.

Í skýrslunni er nefnt að í maí á þessu ári hafi netsamband á nýju farsímakerfi Símans náð til 91% íbúa landsins, aðeins tveimur árum eftir að fyrirtækið hóf uppbyggingu slíks kerfis hér á landi og þremur árum eftir að Nova hóf sína uppbyggingu.

Kemur fram að 98% heimila hér á landi búi við nettengingu, en það sé hæsta hlutfall í heimi. Þá notist 98,2% íbúa við netið og hafi sú tala hækkað talsvert síðan 2010 vegna aukinnar notkunar kvenna.

Þá er minnst á að Alþingi hafi samþykkt að veita um 4 milljónum Bandaríkjadala í uppbyggingu háhraðanets um landið með það að markmiði að fyrir árið 2020 verði nánast öll heimili landsins með aðgang að 100 megabita nettengingu.

Samkvæmt skýrslunni batna innviðir næstum allra landa, en mikill munur er á þeim best og verst settu. Í neðsta sæti listans er Níger með 1,07 stig og Tsjad með 1,09 stig. Neðsta Evrópuland á listanum er Bosnía Hersegóvína með 5,25 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert