Tengsl milli bakflæðislyfja og astma

AFP

Börn kvenna sem taka lyf við vélindabakflæði á meðgöngu eru þriðjungi líklegri til að þjást af astma en önnur börn. Rannsakendur segja þó óljóst hvort það eru lyfin sjálf eða eitthvað annað sem veldur.

Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Journal of Allergy and Clinical Immunology en höfundar rannsóknarinnar ítreka að frekari rannsókna sé þörf til að kanna hvað veldur tengslunum milli lyfjanotkunar mæðranna og aukinna líkna á astma hjá börnunum.

Vélindabakflæði, sem lýsir sér þannig að innihald magans rennur upp í vélindað, veldur brjóstsviða og er algengt meðal óléttra kvenna vegna hormónabreytinga og þrýstings á magann.

Hægt er að koma í veg fyrir bakflæðið með lyfjum, en þau hafa löngum verið talin hættulaus börnum í móðurkviði.

Vísindamenn frá Skotlandi og Finnlandi fóru yfir átta eldri rannsóknir og komust að því að börn kvenna sem tóku bakflæðislyf á meðgöngu voru þriðjungi líklegri til að hafa heimsótt lækna vegna astma-einkenna.

Astmi er krónískur lungnasjúkdómur sem veldur bólgum og samdrætti í öndunarveginum. Hann kemur oft fram á barnsaldri.

Sem fyrr segir segja vísindamennirnir að frekari rannsókna sé þörf og það kunni að vera að það sé vélindabakflæðið sjálft sem sé orsakavaldurinn, frekar en lyfin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert