Veikleiki í WhatsApp leyfir lestur skilaboða

Veikleikinn er sagður ógna tjáningarfrelsinu.
Veikleikinn er sagður ógna tjáningarfrelsinu. AFP

Veikleiki hefur fundist í skilaboðaforritinu WhatsApp, sem gerir Facebook og öðrum kleift að grípa inn í og lesa dulkóðuð skilaboð á milli notenda. Frá þessu greinir breska dagblaðið Guardian í ýtarlegri umfjöllun í dag.

Facebook hefur hingað til haldið því fram að enginn geti lesið skilaboðin nema sá sem þau eru ætluð, ekki einu sinni fyrirtækið sjálft og starfsfólk þess. Hefur Facebook fullvissað notendur, sem telja rúman milljarð, um að leynd hvíli yfir því sem þeim fer á milli.

Ógn við tjáningarfrelsið

En ný rannsókn sýnir fram á að fyrirtækið getur lesið skilaboð notenda, vegna aðferðarinnar sem notuð er við dulkóðun þeirra.

Baráttumenn fyrir friðhelgi einkalífsins segja veikleikann vera „gríðarlega ógn við tjáningarfrelsið“ og vara við því að opinberar stofnanir geti notað hann til að fylgjast með fólki, sem standi á sama tíma í þeirri trú að gögnin séu örugg.

WhatsApp hefur enda verið kynnt sem mjög öruggt forrit, og er notað af mörgum aðgerðasinnum, andófsmönnum ýmiss konar og sömuleiðis ríkiserindrekum.

Dulkóðun forritsins reiðir sig á það að snjalltækin framleiði sérútbúna einstaka öryggislykla, sem notendur senda sjálfkrafa á milli sín til að tryggja það að samskipti þeirra séu örugg, og að enginn hafi gripið inn í þau.

Þvingar framleiðslu nýrra lykla

Í ljós hefur komið að WhatsApp getur þvingað það að nýir lyklar séu framleiddir fyrir notanda sem ekki er nettengdur, án þess að sendandi og móttakandi skilaboðanna viti af því. Þá er hægt að láta sendandann dulkóða skilaboð upp á nýtt, með nýjum dulkóðslyklum, og senda aftur þau skilaboð sem ekki höfðu áður verið merkt sem móttekin.

Móttakandinn veit ekki af þessari breytingu, á meðan sendandinn fær aðeins tilkynningu um þetta ef hann hefur kveikt á dulkóðunarviðvörunum í stillingum forritsins, og þá aðeins eftir að skilaboðin hafa verið send upp á nýtt.

Með þessari aðferð getur WhatsApp lesið skilaboð notendanna.

Umfjöllun The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert