Skaðleg efni í umbúðum matar

Pappír sem notaður er utan um skyndibitamat getur innihaldið skaðleg …
Pappír sem notaður er utan um skyndibitamat getur innihaldið skaðleg efni, s.s. flúor. AFP

Eiturefni finnast í um þriðjungi umbúða sem notaðar eru utan um skyndibitamat í Bandaríkjunum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birt er í Environmental Science & Technology Letters.

Það er því ekki aðeins maturinn sjálfur, oft fullur af óhollustu, sem hefur slæm áhrif á heilsu þess sem neytir heldur einnig plastið og aðrar umbúðir sem hann er geymdur og seldur í.

Umbúðirnar sem voru prófaðar eiga það sameiginlegt að vera þess eðlis að þær hrindi frá sér fitu. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að eiturefni úr þessum umbúðum geta smitast yfir í matinn, að sögn aðalhöfundar rannsóknarinnar, Laurel Schaider, sem starfar við Silent Spring-stofnunina í Bandaríkjunum.

„Þessar rannsóknir hafa sýnt að smitið í matinn fari eftir hitastigi hans, gerð hans og hversu lengi maturinn hefur verið í snertingu við umbúðirnar,“ segir Schaider í samtali við CNN.

Fimm stofnanir gerðu rannsóknina í samvinnu. Þær prófuðu yfir 400 sýnishorn af umbúðum frá 27 skyndibitakeðjum í Bandaríkjunum. Umbúðunum var skipt niður í flokka, s.s. pappír utan um samlokur, bréfpoka fyrir sætabrauð, pappakassa, pappamál o.fl.

Pappír sem vafinn er utan um mat kom verst út í könnuninni. 46% af öllum slíkum umbúðum sem voru prófaðar innihéldu flúor. Ekki voru gefnar upplýsingar í niðurstöðum rannsóknarinnar um hvaðan þessar umbúðir væru fengnar.

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert