YouTube segir skilið við 30 sekúndna auglýsingar

YouTube fór fyrst í loftið í febrúar árið 2005.
YouTube fór fyrst í loftið í febrúar árið 2005.

Frá og með næsta ári mun YouTube hætta að vera með 30 sekúndna auglýsingar sem notendur þurfa að horfa á. Talsmenn Google, sem á myndbandarásina, staðfestu þetta í samtali við þáttinn Newsround á BBC. 

Þeir segjast vilja einblína á þjónustu sem hentar bæði notendum og auglýsendum. 

Margir tölvunotendur hafa litla þolinmæði gagnvart löngum auglýsingum sem ekki er hægt að sleppa eða spóla yfir. Google hefur því kynnt styttri útgáfur til leiks. 

Fram kemur á fréttavef BBC, að fjölmiðla- og ráðgjafafyrirtækið Agenda21 telji þetta endurspegla muninn á myndböndum á netinu og línulegri sjónvarpsdagskrá. 

„Þrjátíu sekúndna auglýsingin er arfleifð frá tímum sjónvarpsins,“ segir Will Smyth, framkvæmdastjóri hjá Agenda21.

„Þetta er hefðbundin sjónvarpsaðferð sem búið er að setja á netið, en þetta er ekki árangursríkasta leiðin til að auglýsa,“ segir Smyth enn fremur. 

Hann bætir við, að breytingin muni hvetja auglýsendur til að vera hugmyndaríkari varðandi það hvernig miðillinn er nýttur. 

Smyth segir að auglýsendur séu mjög áhugasamir um að nýta myndskeið í auglýsingum. Það sé hins vegar skortur á hágæðaefni. Það sé því allra hagur að einblína á auglýsingar sem hægt sé að sleppa. Þá sé ekki verið að neyða fólk til að horfa á auglýsingar og auglýsendur þurfi ekki að greiða fyrir þær auglýsingar sem ekki sé horft á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert