Hafa svarað því hvers vegna sauðfé verður ástleitið á veturna

Sauðfé.
Sauðfé. mbl.is/Árni Torfason

Vísindamenn segjast hafa uppgötvað lykilinn að því hvers vegna gredda hleypur í sauðkindina á veturna, þ.e. hvers vegna breytingar á lengd daga leiða til undaneldis, hornavaxtar og þéttara reyfis. Þeir segja að niðurstöðurnar kunni að verða til þess að bændur geti hagrætt sauðburði til að hámarka lífsafkomu lamba.

Samkvæmt Guardian hefur lengi verið vitað að breytingar á frjósemi dýra tengjast melatóníni, hormóni sem myndast í heilakönglinum. Melatónín hefur áhrif á annan kirtil, heiladingulinn, m.a. á magn þeirra kynhormóna sem hann framleiðir.

Upphaf frjósemistímabilsins hjá sauðfé hefur verið tengt lengri tímabilum melatónínframleiðslu, sem þýðir að veturinn er tímabil kindarómansa. Það hefur hins vegar verið ráðgáta hvernig þetta gerist, þar sem það svæði heiladingulsins sem nemur melatónínið er aðskilið því svæði sem framleiðir kynhormónin.

Æxlunarfræðingurinn David Bates og kollegar hans við University of Bristol telja sig hins vegar hafa fundið svarið. Þeir telja prótín hinn týnda hlekk en það verður til á svæðinu í heiladinglinum sem nemur melatónínið.

Prótínið kemur í tveimur myndum; önnur hindrar vöxt æða en hin örvar æðavöxt. Melatónín stjórnar því hvor tegund prótínsins verður til.

Teymið komst að þeirri niðurstöðu að sú tegund prótínsins sem hindrar vöxt æða, og dregur þannig úr tengslum milli ólíkra svæða heiladingulsins, verður til á löngum tímabilum melatónínframleiðslu, s.s. á veturna. Þá kom í ljós að sama tegund prótínsins örvar framleiðslu kynhormóna, sem valda því að sauðféð fer að líta hitt kynið hýru auga.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert