Fá 400 milljónir í þjálfunarstyrki

Styrkþegar í skólahlutanum.
Styrkþegar í skólahlutanum. Mynd/Rannís

Rannís hefur úthlutað 3,5 milljónum evra, eða tæplega 400 milljónum króna, í náms- og þjálfunarstyrki úr menntahluta Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlunar ESB. Voru 63 verkefni styrkt og njóta um eitt þúsund einstaklingar frá skólastofnunum, fræðsluaðilum og fyrirtækjum góðs af styrkjunum að þessu sinni.

Eins og undanfarin ár var hæstum styrkjum úthlutað til Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Tækniskólans. Einnig kom Borgarholtsskóli sterkur inn að þessu sinni.

Hæstu styrkirnir voru veittir vegna stúdenta- og starfsmannaskipta. Fékk Háskóli Íslands 795 þúsund evrur vegna slíks verkefnis, Listaháskólinn 451 þúsund evrur og Háskólinn í Reykjavík 313 þúsund evrur. Þá fengu háskólar einnig styrki vegna samstarfs utan Evrópu, en Háskóli Íslands fékk hæsta styrkinn í þeim flokki, 213 þúsund evrur.

Tækniskólinn fékk hæsta styrkinn í flokki starfsmenntunar, eða 183 þúsund evrur vegna verkefnis um nýsköpun og tækni. Keilir Aviation Academy fékk 130 þúsund evrur vegna verklegrar þjálfunar flugvirkjanema í Skotlandi og Iðan fræðslusetur fékk 87 þúsund evrur vegna verkefnis íslenskra iðnnema og starfsmanna í Evrópu.

Hæsti styrkurinn í flokki leik-, grunn- og framhaldsskóla  fór til verkefnis til að efla læsi og aðlögun fjöl-/tvítyngdra í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Fékk verkefnið samtals 51.165 evrur. Þar á eftir kom verkefni vegna starfsþróunar til eflingar nemendamiðaðrar faglegrar forystu hjá Menntaskólanum við Sund. Var sá styrkur 23.255 evrur. Nesskóli fékk 22.255 evrur til starfsþróunar starfsfólks skólans og Borgarholtsskóli fékk 21.440 evrur til skapandi kennslu og lærdóms. Klettaskóli fékk 20.940 evrur vegna verkefnisins „Þó að ég tali ekki þýðir það ekki að ég hafi ekkert að segja...“.

Alls bárust 77 umsóknir um styrki að upphæð ríflega 700 milljónir. Mesta nýliðunin í hópi umsækjenda var í starfsmenntahlutann en flestar umsóknir bárust í skólahlutann eða 42 umsóknir.

Náms- og þjálfunarverkefni gefa nemendum og starfsfólki skóla á öllum skólastigum, fræðslustofnana og fyrirtækja sem sinna menntun tækifæri til að taka hluta af námi eða sinna starfsþjálfun og kennslu í 33 löndum í Evrópu. Að auki geta háskólar sótt um samstarfsstyrki við lönd utan Evrópu.

Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins, er stærsta áætlun í heimi á þessu sviði. Ísland fær árið 2017 um 8 milljónir evra eða ríflega 900 milljónir til ráðstöfunar í verkefnistyrki á sviðum menntunar og æskulýðsmálefna, þar af eru um 650 milljónir til menntahlutans. Markmið Erasmus+ áætlunarinnar í menntun eru að ýta undir nýsköpun og þróun á evrópskum menntakerfum, meðal annars með því að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnþætti eins og læsi og stærðfræði, ýta undir sköpunargáfu og frumkvæði nemenda, vinna gegn brotthvarfi, innleiða upplýsingatækni, efla starfsemi skólabókasafna og almennt efla gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert