Tímamótamæling á Hofsjökli

Snjóþykkt var meðal annars mæld með kjarnaborun í leiðangrinum á …
Snjóþykkt var meðal annars mæld með kjarnaborun í leiðangrinum á dögunum. Það er Bergur Einarsson sem heldur á snjókarnanum. Ljósmynd/Þorsteinn Þorsteinsson

Vetrarákoma á Hofsjökul var í vetur um 20% meiri en veturinn 2015-2016. Hún reyndist vera mjög nálægt meðallagi frá upphafi mælinga árið 1988.

Þrír starfsmenn Veðurstofu Íslands mældu vetrarákomu á Hofsjökul dagana 29. apríl-6. maí síðastliðinn. Að þessu sinni var um tímamótaleiðangur að ræða því nú var farið til mælinga á þykkt vetrarsnævar á jöklinum í þrítugasta sinn. Oft er miðað við 30 ára meðaltöl í veðurfars- og vatnafræðirannsóknum og einnig þegar kannaðar eru langtímabreytingar á afkomu jökla, samkvæmt upplýsingum Þorsteins Þorsteinssonar, sérfræðings í jöklarannsóknum hjá Veðurstofu Íslands. Þorsteinn var leiðangursstjóri í vorferðinni á Hofsjökul á dögunum. Með honum í för voru Bergur Einarsson jarðeðlisfræðingur og Vilhjálmur Kjartansson tæknimaður.

Mæliröðin frá Hofsjökli er sú fyrsta hér á landi sem nær 30 ára tímalengd og er þá átt við ársafkomuröðina reiknaða út frá vetrarákomu og sumarleysingu. Vetrarákoma í Grímsvötnum hefur hins vegar verið mæld á vegum Jöklarannsóknafélagsins frá árinu 1951.

Bergur Einarsson jarðeðlisfræðingur og Vilhjálmur Kjartansson tæknimaður á Hásteinum við …
Bergur Einarsson jarðeðlisfræðingur og Vilhjálmur Kjartansson tæknimaður á Hásteinum við miðju jökulsins. Ljósmynd/Þorsteinn Þorsteinsson

Vatnamælingar Orkustofnunar hófu mælingarnar á Hofsjökli árið 1988 og fyrsta árið var eingöngu mælt á norðanverðum jöklinum, á ísasviði sem kennt er við Sátujökul og nær yfir tæp 10% af flatarmáli Hofsjökuls. Frá árinu 1989 hefur einnig verið mælt á Þjórsárjökli og Blágnípujökli og ná þessi þrjú ísasvið samtals yfir um 40% af flatarmáli jökulsins. Mælingarnar fluttust til Veðurstofu Íslands við sameiningu Veðurstofunnar og Vatnamælinga árið 2009.

Ísasviðin á Hofsjökli, þar sem vetrarákoma og sumarleysing hefur verið mæld í þrjá áratugi, eru sem fyrr segir þrjú. Þau má sjá á meðfylgjandi korti. Flatarmál Blágnípujökuls er nú um 50 ferkílómetrar, Sátujökuls um 74 km2 og Þjórsárjökuls um 212 km2. Flatarmál Hofsjökuls alls er nú um 825 ferkílómetrar en áætlað er að flatarmálið hafi verið rúmlega 1000 km2 við lok litlu ísaldar um 1890.

Snjóalög voru að þessu sinni í meðallagi á jöklinum, að sögn Þorsteins. Mest voru þau á suðvesturhlutanum en minnst á honum norðanverðum. Snjólétt var norðan Hofsjökuls við vetrarlok en allmikill snjór sunnan jökulsins, einkum kringum Kerlingarfjöll.

Vetrarákoma mæld vorið 2017 reyndist vera 1,9 metrar á Blágnípujökli, 1,5 metrar á Sátujökli og 1,6 metrar á Þjórsárjökli. Tölurnar gefa til kynna meðalvatnsgildi vetrarsnævarins á viðkomandi ísasviðum.

Snjóþykktin mest á hábungunni

Snjóþykkt á Hofsjökli mælist oftast mest á hábungu jökulsins, sem er í 1.792 metra hæð. Snjóþykkt í vetrarlok hefur mælst á bilinu 5-8 metrar, að meðaltali 6,5 m. Mest mældist hún 8,1 metri vorið 2012 en reyndist 6,9 metrar vorið 2017. Vatnsgildi vetrarákomunnar hefur að jafnaði verið um 3 metrar, þ.e. 3.000 millimetrar og þar sem einnig bætist á hábunguna að sumarlagi má áætla að árleg úrkoma á hábungu Hofsjökuls sé að jafnaði rúmlega 4.000 mm (vatnsgildi). Til samanburðar er meðalársúrkoma á landinu öllu áætluð um 1.600 mm.

Frá upphafi hefur verið mælt í 25-30 punktum á svæðum sem eru hættulítil yfirferðar. Skafrenningur hefur áhrif á dreifingu snævar um jökulinn og á síðustu árum hefur fengist mun fyllri mynd af ákomudreifingunni með mælingu snjóþykktar á samfelldum sniðum með svokallaðri snjósjá. Tæki þetta er dregið á eftir vélsleða og mælir endurkast rafsegulbylgju frá neðra borði vetrarlagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert