Aldur skiptir máli

AFP

Líkindi þess að glasafrjóvgun takist sem skyldi byggist mjög á aldri bæði konunnar og karlsins en hingað til hefur aldur konu verið talinn skipta máli, ekki sæðisgjafans. Því eldri karlar því minni líkur á frjóvgun, segir í nýrri bandarískri rannsókn. 

Við rannsóknina, sem var gerð í Harvard, var stuðst við gögn úr tæplega 19 þúsund glasafrjóvgunum. Rannsóknin kollvarpar því hugmyndum um að frjósemi karla vari út ævina því að það er sama hvort frjóvgunin verður með hefðbundnum hætti eða með aðstoð - sæðisfrumum fækkar með hækkandi aldri karla.

Jafnframt hafa fyrri rannsóknir sýnt að meiri hætta er á genagöllum þegar sæði kemur frá eldri körlum. Er þar talað um auknar líkur á að barnið verði einhverft og að það glími við geðklofa. 

Þrátt fyrir þetta þá skiptir aldur kvenna mun meira máli en aldur karla þegar kemur að frjósemi. 

Í frétt BBC kemur fram að karlar á aldrinum 40-42 ára eigi 46% minni líkur á að verða feður með glasafrjóvgun heldur en karlar á aldrinum 30-35 ára þegar konan er yngri en þrítug.

35 ára gamlar konur eiga mun meiri möguleika á að að verða þungaðar ef karlinn er yngri en þrítugur heldur með jafnöldrum sínum.

Hér er hægt að lesa nánar um rannsóknina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert