Vatnsskortur yfirvofandi í 17 löndum

Júlí­mánuður þessa árs var heit­asti mánuður á heimsvísu frá upp­hafi …
Júlí­mánuður þessa árs var heit­asti mánuður á heimsvísu frá upp­hafi mæl­inga. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaauðlindastofnuninni er vatnsskortur sem eitt sinn taldist óhugsandi er nú yfirvofandi í 17 löndum þar sem tæplega fjórðungur jarðarbúa býr. AFP

Vatnsskortur sem eitt sinn taldist óhugsandi er nú yfirvofandi í 17 löndum þar sem tæplega fjórðungur jarðarbúa býr. Tólf landanna eru í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaauðlindastofnunarinnar (e. World Resources Institute). 

Aukin eftirspurn eftir vatni er meginástæða yfirvofandi vatnsskorts að mati skýrsluhöfunda. Málið er í raun sáraeinfalt: Aukin eftirspurn dregur úr vatnsforða heimsins. Eftirspurn á heimsvísu hefur meira en tvöfaldast frá því á 7. áratug síðustu aldar og engin merki eru um að eftirspurnin muni minnka á næstunni. 

Í Chennai, sjöttu stærstu borg Indlands, er vatnaforði nánast uppurinn og í fyrra munaði mjög litlu að vatnaforði íbúa í Höfðaborg í Suður-Afríku kláraðist. Árið þar áður gripu borgaryfirvöld í Róm til þess ráðs að skammta vatn til að koma í veg fyrir að vatnsforðinn kláraðist. 

Í löndunum 17 þar sem hættan á vatnsskorti er talin …
Í löndunum 17 þar sem hættan á vatnsskorti er talin alvarlegust er um 80% alls vatnsforða notaður árlega með þeim afleiðingum að lítið safnast upp milli ára. Ljósmynd/WRI

Lítill forði safnast upp milli ára

Ástandið í 17 löndum er metið mjög alvarlegt, það er í Katar, Ísrael, Líbanon, Íran, Jórdaníu, Líbíu, Kúveit, Sádi-Arabíu, Erítreu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, San Marínó, Barein, Indlandi, Pakistan, Túrkmenistan, Óman og Botsvana. Í löndunum er um 80% alls vatnsforða notaður árlega með þeim afleiðingum að lítið safnast upp milli ára. Vatnsforðinn er aðallega nýttur í landbúnað. 

Ástandið í 44 löndum er metið alvarlegt, en þar býr um þriðjungur jarðarbúa. Ísland er í 161. sæti af 164. sem úttektin nær til og tilheyrir hópi landa þar sem litlar líkur, eða minna en 10%, eru taldar á vatnsskorti á næstu árum. 

Ástandið í 44 löndum er metið alvarlegt, en þar býr …
Ástandið í 44 löndum er metið alvarlegt, en þar býr um þriðjungur jarðarbúa. Ísland er í 161. sæti af 164. sem úttektin nær til. Ljósmynd/WRI

Alþjóðaauðlindastofnunin telur að afleiðingar mikillar vatnsnotkunar og lítils vatnsforða geti orðið mjög alvarlegar, einkum vegna áhrifa loftslagsbreytinga sem dregið getur úr úrkomu og haft áhrif á eftirspurn eftir vatni.

Þá gerir aukin eftirspurn vegna fólksfjölgunar og aukinna efnahagsumsvifa illt verra. Í tólf af þeim sautján löndum sem eru í mestri hættu telur Alþjóðabankinn að hugsanlegt sé að landsframleiðsla þar dragist saman um sex til tólf prósent fyrir 2050.

Vatnsskortur er aðeins einn áhrifaþáttur vatnsöryggis, að því er fram kemur í skýrslunni. Líkt og hver önnur áskorun felst lausnin í hvernig brugðist er við ástandinu. Bent er á að sum ríki sem búa við líkur á miklum vatnsskorti hafi nú þegar tekið á vandanum með samræmdum aðgerðum. Stjórnvöld í Namibíu hafa til að mynda unnið að því síðustu fimmtíu ár að gera skólpvatn drykkjarhæft. 

Nauðsynlegt að grípa til aðgerða

Alþjóðaauðlindastofnunin leggur til þrjár leiðir til að minnka vatnsnotkun og þar með minnka líkurnar á vatnsskorti: 

  1. Auka skilvirkni vatnsnotkunar í landbúnaði. 
  2. Fjárfesting í „gráum“ og „grænum“ innviðum. Vatnsnotkun er mis mikil eftir árum og rannsókn Alþjóðaauðlindastofnunarinnar og Alþjóðabankans gefur til kynna að með því að fjárfesta í lögnum, hreinsistöðvum, votlendi og vatnasvæðum megi jafna og minnka vatnsnotkun. 
  3. Endurvinnsla. „Við þurfum að hætt að hugsa um frárennslisvatn sem úrgang,“ segir í skýrslunni. 

Niðurstöður skýrslunnar eru skýrar: „Það eru óneitanlega vafasöm þróun í vatnsmálum í heiminum. En með því að að grípa til aðgerða núna og fjárfesta í bættri stjórnun er hægt að leysa vandann í þágu jarðarbúa og jarðarinnar allrar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert