Tvö prósent má rekja til Neanderdalsmanna

Íslendingar eru meðal annars komnir frá Neanderdalsmönnum.
Íslendingar eru meðal annars komnir frá Neanderdalsmönnum. mbl.is/​Hari

Rekja má um tvö prósent af erfðamengi hvers Íslendings til Neanderdalsmanna. Ekki bera þó allir sömu bútana. Þetta sýnir ný rannsókn vísindamanna hjá Íslenskri erfðagreiningu og samstarfsmanna þeirra hjá Háskólanum í Árósum sem birtist í vísindaritinu Nature í dag.

Í tilkynningu frá ÍE segir að reynst hafi mögulegt að púsla saman um helmingi af erfðamengi Neanderdalsmanns úr þeim forsögulegu erfðabútum sem finnist í núlifandi Íslendingum.

Rannsóknin leiði í ljós að um helmingur erfðamengis Neanderdalsmanna finnst í erfðamengi núlifandi Evrópubúa.

Ný greiningaraðferð

„Þetta er langstærsta rannsóknin þar sem raðgreining erfðamengja er notuð til að varpa ljósi á kynblöndun milli Neanderdalsmanna og Homo sapiens fyrir 50 þúsund árum. Alls voru skoðuð erfðamengi 28 þúsund Íslendinga eða úr nærri 10 prósentum þjóðarinnar. Notuð var ný greiningaraðferð, sem var ekki takmörkuð við leit að litningabútum úr þeim þremur fornu mannverum sem hafa verið raðgreindir beint úr tugþúsund ára gömlum líkamsleifum,“ segir í tilkynningunni.

Einnig hafi komið skýrt fram við rannsóknina að hægt sé að rekja búta úr erfðamengi Íslendinga til Denisovana, annarrar fornrar manntegundar sem að öllum líkindum blandaðist Neanderdalsmönnum áður en þeir blönduðust Homo sapiens.

Agnar Helgason, einn höfunda rannsóknarinnar segir að mikilvægi hennar felist ekki síst í umfanginu, sem gefi miklu betri mynd af þessari forsögulegri blöndun og áhrifum hennar á líffræðilegan fjölbreytileika núlifandi fólks.

Kári segir fjölbreytni til marks um árangur.
Kári segir fjölbreytni til marks um árangur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimm fornar erfðabreytur

Haft er eftir Agnari að rannsóknin leiði í ljós að erfðaefnið frá þessum forsögulegu frændtegundum hafi sáralítil áhrif á sjúkdóma eða svipgerð núlifandi fólks.

„Einungis fundust fimm fornar erfðabreytur sem hafa áhrif á svipgerð, en þær hafa áhrif á hæð okkar, virkni blöðruhálskirtlls, stærð og styrk blóðrauða og hraða blóðstorknunar.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og annar höfundur að rannsókninni, segir þessa vitneskju mikilvægt innlegg í leitinni að uppruna manneskjunnar. Þetta sé ættarsaga einnar greinar mannkynsins sem segi okkur að við erum ekki bara homo sapiens heldur einnig afkomendur annarra forsögulegra tegunda.

Hollt að minnast á þessum myrku tímum

„Við erum að klóra í yfirborðið á því sem þessi blandaða arfleifð kann að þýða,“ segir Kári og víkur að Neanderdalsmönnum.

„Það sem við vitum er að á þeim fimmtíu þúsund árum sem liðin eru frá tíma þeirra, þá hefur okkar aðlögunarhæfni og fjölbreytni gert okkur kleift að blandast og flytja, setjast að og dafna í öllum heimshornum, en það gátu þeir ekki. Á þessum myrku tímum er hollt að minnast þess að fjölbreytni okkar er bókstaflega til marks um þann árangur sem við höfum náð, og að þess vegna ættum við að hjálpa hvert öðru eins og við getum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert