Boða stöðvun hafstrauma við Ísland

Atlantshafið nærri Vík í Mýrdal. Hvað gerist ef veltihringrásin svokallaða …
Atlantshafið nærri Vík í Mýrdal. Hvað gerist ef veltihringrásin svokallaða stöðvast á næstu áratugum? Heimurinn ferst að minnsta kosti ekki fullvissar Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur, lesendur um. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Hugtakið Golfstraumurinn hefur tekið yfir nánast alla hringrás í Norður-Atlantshafi, síðustu ár hefur verið talað um hann sem allan varmaflutning í hafi frá ströndum Norður-Ameríku og norður á bóginn,“ segir Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Tilefni spjallsins er grein í vísindatímaritinu Nature sem boðar stöðvun hafstraums sem þar gengur undir nafninu AMOC, „The Atlantic meridional overturning circulation“, á 21. öldinni, straums sem er töluvert víðförulli en Golfstraumurinn og flytur hlýjan sjó til norðurhvels jarðar en kaldan suður á bóginn.

Vangaveltur um óstöðugleika

Þennan straum segir Halldór hafa verið kallaðan veltihringrás en gerir heiðarlega tilraun til að einfalda útskýringarnar fyrir óinnvígða. „Ef maður notar bara orðið Golfstraumur fyrir þetta straumakerfi þá er hann eftir sem áður klofinn í nokkra þætti, þar er lárétti þátturinn mikilvægastur, sem eru þessir venjulegu hafstraumar sem við þekkjum, og svo lóðrétti þátturinn og það er hann sem hefur stundum verið kallaður veltihringrás, eða AMOC á ensku,“ segir Halldór.

Láréttu straumarnir séu hins vegar hringstreymi heitra strauma á norðurleið og kaldra strauma til baka. „Mjög lengi hafa vangaveltur verið uppi á borðinu um hvort veltihringrásin sé óstöðug, það er að segja að ef það hlýnar of mikið eða vatnið norðan við verði of ferskt, til dæmis við mikla rigningu eða hressilega bráðnun Grænlandsjökuls, geti þessi straumur ekki lengur myndað djúpsjó, þá væri í raun búið að slökkva á honum,“ heldur Halldór áfram.

Hafstraumar hafa veruleg áhrif á hitastig sjávar. Hlýr sjór streymir …
Hafstraumar hafa veruleg áhrif á hitastig sjávar. Hlýr sjór streymir frá suðvestri inn á Norður-Atlantshaf. Megingreinin fer norður með Noregi og upp til Barentshafs, en smágrein fer vestur og norður á milli Íslands og Grænlands. Kort/mbl.is

Segir hann vísindamenn sjá það fyrir sér að líklega drægi fremur úr styrk straumsins en að hann stöðvaðist með öllu. „Þó eru til líkön sem sýna hvað gerist ef slokknar á þessum straumi mjög hratt, nánast samstundis, sem er á nokkrum árum. Í þeim líkönum er mjög erfitt að koma honum í gang aftur en í þeim líkönum þar sem dregur bara úr honum getur hann vel aukist aftur, það er þá bara venjuleg upp- og niðursveifla.“

Á jaðri vísindanna

Kveður Halldór það mikilvægt að þessi straumur sé aðeins hluti af því kerfi sem nú er almennt kallað Golfstraumurinn, láréttu straumakerfin muni eftir sem áður halda sínu striki hvað sem gerist með veltihringrásina. „Þótt AMOC hyrfi alveg er eftir sem áður mikill varmaflutningur inn á svæðið frá hafinu og reyndar líka frá lofthjúpnum, það er mikilvægt að hafa í huga að lofthjúpurinn flytur meiri varma inn á þetta svæði en hafið gerir,“ segir haffræðingurinn.

Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur, fer yfir strauma og stefnur …
Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur, fer yfir strauma og stefnur í hafinu með mbl.is. mbl.is/Hari

Þar með segir hann að aldrei kæmi til þess, þótt AMOC-straumurinn stöðvaðist, að hitaflutningur inn á hafsvæðið við Ísland legðist af með öllu, hann myndi einfaldlega minnka. „Loftslagslíkön ná ekki öll að herma þetta, þarna erum við á jaðri vísindalegra rannsókna og menn vita ekki alveg hvernig á að takast á við þetta. En í loftslagslíkönum þar sem dregur úr styrk AMOC, sem er reyndar í mjög mörgum líkönum, er það yfirleitt þannig að maður sér einhverja kalda bletti í Norður-Atlantshafi en þeir ná ekkert endilega til Íslands, ekki allir, og yfirleitt eru þeir tímabundnir, taka kannski tíu til fimmtán ár,“ segir Halldór.

Hafsvæðið kringum Ísland er heitara

Hann segir hitasveiflur í hafinu sunnan við Ísland ekki undantekningu, þvert á móti séu þær reglan. „Þar eru alltaf sveiflur og þetta [ef veltihringrásin stöðvaðist] myndi einfaldlega bæta í köldu sveiflurnar og við vitum að þær sveiflur hafa mikil áhrif,“ heldur hann áfram.

En hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir Ísland og Íslendinga?

„Í þessari grein í Nature eru menn að tala um að þetta hrynji um miðja öldina en eru samt að tala um tímabilið 2026 til 2095 undir, þess vegna heldur fólk að þetta sé bara að fara að gerast núna. Ef svo færi er ágætt að hafa í huga að hafsvæðið í kringum Ísland er sex til átta gráðum heitara en hafið er að meðaltali á þessari breiddargráðu. Sú hlýnun er meira og minna drifin af hafinu, það er varmaflutningur inn á svæðið, ef AMOC-straumurinn hætti myndi sá varmaflutningur hætta og þá gæti kólnað hjá okkur,“ útskýrir Halldór.

„Hvar er hafið, hvar er beltið bláa/bjarta, frjálsa, silfurgljáa?/Ertu horfin, …
„Hvar er hafið, hvar er beltið bláa/bjarta, frjálsa, silfurgljáa?/Ertu horfin, svása svala lind?“ orti séra Matthías Jochumsson í mögnuðu ljóði sínu, Hafísnum. Tæplega hverfur hafið við Ísland en hitastig þess breytist væntanlega á næstu áratugum. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Þetta sé þó engan veginn víst, kólnunin gæti orðið sunnar að sögn Halldórs og staðið tímabundið yfir. „Almenna reglan er þó sú, af því við höfum horft á þessar sveiflur í hafinu sunnan við landið, að þessar sveiflur hafa áhrif á hitastig og þær hafa áhrif á jökla, nýlega hafa verið skrifaðar greinar um að Vatnajökull og fleiri jöklar séu háðir hita hafsins sunnan við landið. Þarna var lengi kaldur blettur, sem var kallaður blái bletturinn af því að hann var blár á öllum hitakortum, en hann hvarf fyrir um það bil tveimur árum þótt það sé óþarfi að afskrifa hann alfarið. Þegar þessi blettur er ekki til staðar er langlíklegast að jöklar minnki, hins vegar geta þeir bætt við sig þegar hann er til staðar,“ segir Halldór af óþreytandi áhuga fræðimannsins.

Hafísárin ekki besti mælikvarðinn

Hann segir hafísárin á sínum tíma dæmi um mjög kalt skeið en það sem nú gæti gerst á næstu árum eða áratugum yrði ekki endilega verra ástand en þá var. „Við vitum hreinlega ekki hvort það yrði jafn vont, álíka eða minna. Vandinn er að við vitum ekki hvar kuldabletturinn yrði, hve lengi hann myndi vara og hve djúpur hann yrði,“ segir Halldór.

Telur hann útilokað að Ísland yrði óbyggilegt vegna þeirra straumabreytinga sem hér hafa verið ræddar, þær gætu hins vegar orðið ávísun á kuldaköst. „En það er mjög erfitt að taka tölfræði frá hafísárunum af því að við erum í bakgrunni sem er mun heitari, loftið er mun heitara og hafið er heitara allt í kringum okkur. Ég hef skoðað töluvert magn af loftslagslíkönum og þau sýna hlýnun í heildina þó að það sé kuldablettur einhvers staðar í Norður-Atlantshafi er hafið að hlýna þegar á heildina er litið,“ segir Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur á Veðurstofu Íslands, að lokum.

Grein Nature

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert