66% gegn Icesave-lögum

Um 66% þeirra, sem tóku afstöðu í Þjóðarpúlsi Gallup, ætla að greiða atkvæði gegn Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem á að fara fram 6. mars. Um 30% ætla að segja já en 4% sögðust ætla að skila auðu.

Sagt var frá könnuninni í fréttum Ríkisútvarpsins. Könnunin var gerð dagana 20.-26. janúar og var úrtakið 5.600 manns valið handahófskennt í úrtakshópi Gallup.

61% aðspurðra sögðust telja það hafa verið rétta ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, að neyta að staðfesta Icesave-lögin í byrjun janúar. Innan við þriðjungur svarenda taldi ákvörðun forsetans ranga en um 10% höfðu ekki skoðun á málinu.

RÚV benti á að stuðningur við ákvörðun forsetans hafi vaxið jafnt og þétt undanfarnar vikur.  Svarendur skiptust nokkuð jafnt í afstöðu til þess hvort ákvörðun forsetans hefði haft áhrif á þjóðarhag. Rúmlega þriðjungur svarenda taldi að áhrifin hafi verið slæm, þriðjungur að þau hafi verið góð og svipaður hópur taldi ákvörðunina engu máli hafa skipt fyrir þjóðarhag.

mbl.is

Bloggað um fréttina