Staðan breytt frá því í janúar

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir. mbl.is/Golli

„Þegar forsetinn synjaði lögunum staðfestingar og vísaði þeim í dóm þjóðarinnar gerði ég ráð fyrir að það gerðist fyrr en varð og án þess að nokkuð annað myndi gerast. Þess vegna skrifaði ég eins og ég gerði,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem skrifaði á vefsvæði sitt í janúar að valið væri skýrt í þjóðaratkvæðagreiðslunni; ríkisstjórn eða forseti.

Í færslu sinni sagði Þórunn m.a.: „Hafni kjósendur breytingunum í atkvæðagreiðslunni tel ég einsýnt að ríkisstjórnin segi af sér og Jóhanna Sigurðardóttir skili umboði til stjórnarmyndunar á Bessastaði. Samþykki kjósendur breytingarnar sem Alþingi hefur þegar afgreitt, þá blasir við að forseti lýðveldisins segi af sér embætti.“

Þórunn segir að starfið sem unnið var síðan hafi breytt þessari skoðun sinni. Allir þingflokkar á Alþingi hafi tekið þátt í því starfi og það hafi breytt stöðunni þannig, að samningaviðræður standi enn yfir við Breta og Hollendinga. „Og viðræðum verður vonandi haldið áfram strax á morgun og lokið á næstu dögum," segir Þórunn sem sjálf sat heima í gær „vegna þess, að niðurstaðan hafði í raun ekkert gildi, enda málið í öðrum farvegi.“

Spurð hvort hún telji niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar veikja eða styrkja stöðu samninganefndarinnar íslensku segir Þórunn stöðuna svipaða og fyrir helgi. „Viðsemjendur okkar fylgjast vel með og eru vel læsir á stjórnmál og almenna umfjöllun um málið hér á landi. Þeir vita jafn vel og við að niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni skipti litlu máli.“

Færsla Þórunnar

mbl.is