Buchheit: Þróunin hefur verið Íslendingum hagfelld

Lee Buchheit stýrði íslensku samninganefndinni en hann er þekktur samningamaður …
Lee Buchheit stýrði íslensku samninganefndinni en hann er þekktur samningamaður á sviði þjóðréttarsamninga. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lee Buchheit, sem stýrði samninganefnd Íslands í viðræðum við Hollendinga og Breta, segir að þróun mála eftir þann samning sem var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars, hafi verið Íslendingum hagfelld. Meðal annars sú athygli sem málið fékk á alþjóðavettvangi og ákvörðun forseta Íslands að hafna því að skrifa undir samninginn. 

Þetta kom fram í máli Buchheit á fundi í Háskóla Íslands nú síðdegis. Þar hrósaði hann fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni,  fyrir sinn þátt í að stuðla að því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitti sér ekki í málinu líkt og hann gerði í upphafi að tilstuðlan Breta og Hollendinga í stjórn sjóðsins.

Hann fjallaði einnig um hvað myndi gerast ef samkomulagið verður ekki samþykkt. Mikil óvissa sé um hvað myndi gerast en taldi líklegt að málið færi fyrir dóm. Hvað varðar líkurnar á því að Ísland myndi vinna málið taldi hann Íslendinga eiga góða möguleika án þess að full vissa sé fyrir því.

Líkur séu á því að Íslendingum yrði gert að greiða alla fjárhæðina í einu ef málið færi fyrir dóm og ef Íslendingar ætli að reyna að semja upp á nýtt þá muni það vinna gegn hagsmunum Íslendinga sá blóðugi niðurskurður sem Bretar standa frammi fyrir. Þess vegna verði hægt að gagnrýna stjórnmálamenn þar í landi fyrir að greiða til Íslendinga á meðan sjúkrahúsum er lokað í Bretlandi og það myndi ekki hjálpa Íslandi.

mbl.is