Á golfvellinum Einstakt landslag einkennir Glen Arbour golfvöllinn.
Á golfvellinum Einstakt landslag einkennir Glen Arbour golfvöllinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Risastórir verslunarkjarnar voru það fyrsta sem komu upp í hugann þegar minnst var á Halifax við Önnu Sigríði Einarsdóttur. Borgin kom henni hins vegar skemmtilega á óvart.

Það verður að viðurkennast að nokkurra fordóma gætti hjá blaðamanni gagnvart heimsókninni til Halifax. Óljósar minningar um kaupglaða Íslendinga sem sneru heim með úttroðnar ferðatöskur í tonnavís kveiktu ekki mikinn áhuga. Slík borg gat varla haft upp á margt áhugavert að bjóða.

Það var farið að rökkva er komið var til Halifax og fallegt bæjarstæði við höfnina mildaði strax hugann, og ljósum prýtt spilavíti, Casino Nova Scotia, minnti meira að segja örlítið á Tívolíið í Kaupmannahöfn – kannski þessi borg reyndist ekki svo vitlaus eftir allt saman. Það sýndi sig líka strax næsta morgun að hér yrði auðvelt að ferðast um á tveimur jafnfljótum. Örstutt reyndist niður á höfn, aðalverslunargötuna, í helstu söfn, almenningsgarða, sögulegar minjar og á fjölda veitinga- og kaffihúsa. Raunar var heimsókn í einhvern verslunarkjarnanna það eina sem krafðist aðstoðar leigubílstjóra!

Skoskari en Skotar

Borgin Halifax, höfuðstaður Nova Scotia – eða Nýja Skotlands – var stofnuð árið 1749 og búa á stór-Halifaxsvæðinu nú um 365.000 manns. Íbúar Halifax og Nova Scotia eru stoltir af skoskum uppruna landsvæðisins – þó flestir þeirra séu af bresku bergi brotnir. Nova Scotia var hins vegar stofnað af Skotanum Sir William Alexander á þriðja áratug sautjándu aldar og leifar um skoska upprunann má m.a. annars finna í kennimerki Nova Scotia, köflótta mynstrinu sem víða er haldið á lofti, sem og gelískunni sem kennd er við Saint Mary's-háskólann í Halifax, sem og fleiri háskóla í héraðinu, með þeim árangri að kennarar þaðan hafa jafnvel verið lánaðir til Skotlands.

Það leynir sér ekki að Halifax er nýlenduborg og hún minnti blaðamann strax nokkuð á Auckland á Nýja Sjálandi. Á báðum stöðum eru stílbrigði gamla heimsins víða ráðandi í miðbæjarkjarnanum. Viður er sömuleiðis áberandi byggingarefni þó vissulega búi báðar borgirnar einnig yfir sínum sérkennum.

Búðaráp og safnarölt

Í Halifax getur ferðalangurinn líka fundið nóg til að hafa fyrir stafni. Fyrir þá kaupglöðu ber fyrst að nefna verslunarkjarnana Mic Mac Mall, sem er í Dartmouth, nágrannabæ Halifax og Halifax Shopping Center, en auk fjölda kanadískra verslana má þar finna búðir á borð við Gap, Old Navy og Toy's R'Us. Gaman getur þá verið að rölta um Spring Garden Road, helstu verslunargötu miðbæjarins.

Það er þó rétt að hafa í huga að líkt og í Bandaríkjunum er söluskattur ekki reiknaður á varning fyrr en við kassann og ber því að reikna með 14% hækkun.

Safnaflóra borgarinnar gæti þá freistað þeirra fróðleiksfúsu, en auk Samtíma- og alþýðulistasafnsins, Art Gallery of Nova Scotia, má þar nefna sjóminjasafnið Maritime Museum of the Atlantic sem m.a. geymir deild sem er að hluta til tileinkuð skipbroti Titanic, enda björgunaraðgerðum að miklu leyti stýrt frá Halifax. Um 150 þeirra 209 fórnarlamba slyssins sem komið var með á land eru t.d. grafin í kirkjugörðum borgarinnar. Sögusvæðið Pier 21 þykir þá vel heimsóknarinnar virði, en milljónir innflytjenda komu til Kanada í gegnum þessa fyrrum innflytjendamiðstöð á árunum 1928-72. Talið er að einn af hverjum fimm Kanadamönnum eigi sér sögu tengda Pier 21.

Bjóráhugafólk gæti þá haft gaman af heimsókn í bruggverksmiðju Alexanders Keiths, þar sem fortíðin er færð í lifandi búning, en þess má geta að mjöður þeirra, Alexander Keith Pale Indian Ale, er sá vinsælasti í Nova Scotia.

Hafnarrölt og útikaffihús

Það er þó ekki síður gaman að rölta bara um og skoða mannlífið. Yfir sumartímann nýta mörg kaffi- og veitingahús sér það að leigja bílastæðarýmið fyrir framan staðinn og skapa þannig útikaffihús og því víða hægt að tylla sér. Þess má einnig geta að bílstjórar í Halifax teljast væntanlega með þeim kurteisustu í heimi – þar sem alltaf er stoppað til að hleypa gangandi vegfarendum yfir götuna!

Gaman er að rölta gönguleiðina meðfram hafnarsvæði miðbæjarins og þá er kristalsgerðin Nova Scotia Crystal vel heimsóknarinnar virði. Þar má fylgjast með blæstri og skurði fagurra kristalsmuna sem virkilega geta komið við pyngjuna.

Sé hins vegar haldið út fyrir miðbæjarhluta hafnarinnar er ferðalangurinn kominn í hefðbundið hafnarvinnsluhverfi, enda Halifax hafnarborg og raunar talin önnur stærsta íslausa höfn í heimi – þó fleiri borgir geri raunar kröfu um þann titil.

North West Arm er þá skemmtilegt að skoða, en þar er að finna verulega fallega íbúðabyggð lausa við alla atvinnustarfsemi, sem gerð hefur verið útlæg á kostnað siglingaklúbba. Heimsókn á Young St. sem liggur innan við gylltu hliðin – Golden Gates – sýnir svo enn aðra hlið á borginni. Hingað flytja þeir sem hafa komist í góðar álnir líkt og hömlulausar byggingarnar bera margar hverjar með sér. Hér ægir húsum í viktoríönskum stíl saman við ný-túdor byggingar og samtíma arkitektúr og afraksturinn fellur ekki alltaf að norrænum naumhyggjusmekk.

Góð til útivistar

Halifax er borg sem hentar vel til útivistar. Stutt er t.d. að skreppa í Point Pleasant Park, 750.000 m² stórt útivistarsvæði sem borgin er með á 999 ára leigu frá héraðsyfirvöldum í Nova Scotia. Sl. 140 ár eða svo hefur verið lagt upp með að landslag garðsins þróist á sem náttúrulegastan máta og hann er því góður staður til hlaupa, gönguferða, útreiða eða jafnvel hjólreiða, sýni veðurguðirnir ferðamanninum miskunn. Veðurfar í Halifax getur nefnilega stundum verið nokkuð íslenskt og rétt að benda ferðalöngum á að apríl og maí geta verið nokkuð votviðrasamir þó sumrin séu venjulega mildari en við eigum að venjast.

Þó nokkra golfvelli er að finna í Halifax og næsta nágrenni og ætti brúnin að lyftast á golfáhugamönnum við að frétta af heilum 18 golfvöllum í nágrenni borgarinnar. Fyrir okkur hin er gott að vita af fjölda annarra útivistarsvæða og smábæja í Nova Scotia sem er gaman er heim að sækja, enda í Halifax og nágrenni nóg annað skemmtilegt að hægt að hafa fyrir stafni en að fylla ferðatöskuna.

annaei@mbl.is

Mic Mac Mall http://micmacmall.shopping.ca Halifax Shopping Centre www.halifaxshoppingcentre.com Pier 21 www.pier21.ca The Brewery Market www.keiths.ca NovaScotian Crystal www.novascotiancrystal.com Nokkrir golfvallanna 18: Granite Springs Golf Club www.granitespringsgolf.com. Glen Arbour Golf Course www.glenarbour.com Grandview www.grandviewgolfandcountryclub.com Brightwood Golf & Country Club www.brightwood.ns.ca.