Bergsteinn Georgsson fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1959. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 30. júlí sl. Foreldrar hans voru Georg Sigurðsson, magister í íslenskum fræðum, f. 19. október 1919, d. 24. desember 1994, og Ásta Bergsteinsdóttir húsmóðir, f. 4. apríl 1922, d. 22. febrúar 1990. Bróðir Bergsteins var Sigurður, hæstaréttarlögmaður, f. 27. september 1946, d. 27. mars 2006, og systir hans er Steinunn, hjúkrunarfræðingur, f. 18. janúar 1956. Bergsteinn hóf sambúð með eftirlifandi eiginkonu sinni, Unni Sverrisdóttur, lögfræðingi, 1979 og gengu þau í hjónaband 12. júlí 1986. Unnur fæddist 28. desember 1959. Börn þeirra eru tvö: 1) Sverrir, hagfræðingur, f. 21. febrúar 1983, í sambúð með Díönnu Dúu Helgadóttur og er þeirra sonur Viktor Steinn, f. 21. febrúar 2008. 2) Unnur Ásta, stúdent, f. 5. desember 1989. Bergsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1979. Hann útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands í febrúar 1985. Hann var fulltrúi hjá yfirsakadómaranum í Reykjavík frá 1985 til 1987. Deildarsérfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 1987 til 1988. Hann rak eigin málflutningsskrifstofu frá 1988, lengst af í sama húsnæði og í góðu samstarfi við bróður sinn. Útför Bergsteins fer fram frá Dómkirkjunni í dag, föstudaginn 7. ágúst, og hefst athöfnin kl. 11.

Kveðja frá Skákrannsóknarfélaginu.

Fyrir rúmum áratug kvöddum við í Skákrannsóknarfélaginu einn félaga okkar. Við sem eftir lifðum væntum þess að fá að njóta návista hver við annan fram á háan aldur. Það átti hins vegar ekki að verða. Nú kveðjum við annan kæran félaga allt of snemma.

Skákrannsóknarfélagið hefur ekki staðið undir nafni undanfarin ár. Það hefur hins vegar verið skemmtilegur félagsskapur og markmiðið um að hittast ræðst í gegnum það, þótt of sjaldan sé. Þegar við hittumst finna menn aldrei fyrir því að langt hafi verið á milli funda og menn hafa frá mörgu að segja og hlæja mikið saman. Enn eru jafnvel sagðar skemmtisögur af lífinu í lagadeildinni, þótt komið sé á þriðja tug ára frá því nokkur okkar var þar stúdent.

Við vitum að Bergsteini leið vel í þessum hópi og okkur leið vel með honum. Því miður mun hann ekki komast á fleiri fundi og fá færi á að hlæja með okkur hinum og deila með okkur sögum af því sem á dagana hefur drifið eða af því hvernig fjölskyldunni reiðir af. Við munum sakna þess og hans sárt.

Okkar missir er þó léttvægur hjá missi fjölskyldunnar, sem við vitum að Bergsteini þótti svo innilega vænt um. Hugur okkar félaganna er hjá ykkur elsku Unnur, Sverrir, Unnur Ásta og fjölskyldunni allri á þessari erfiðu stundu. Við vonum að algóður guð gefi ykkur styrk og vitum að minningin um yndislegan föður, félaga og eiginmann lifir með ykkur.

Skákrannsóknarfélagið.

Ég tók fyrst eftir Bergsteini þegar ég mætti í minn eina tíma á undirbúningsnámskeiði fyrir verðandi laganema. Eins og ég, sem mætti í hálfskítugum vinnugalla, skar hann sig úr hópnum með sitt mikla svarta hár. Í minningunni eru flestir aðrir jakkafataklæddir Verslingar, hefðu eins getað verið SUS á fundi og töldu sig lögmenn langt um aldur og próf fram. Mér fannst maður með rokkarahár mun meira spennandi.

Þegar fyrsta vetri laganámsins vatt fram tókust smám saman kynni með okkur Bergsteini, sem staðið hafa síðan. Hann var ekki hávaðamaður eða mikill fyrirgangur í honum, sennilega svolítið feiminn. Þeir sem þekktu hann vissu að hann var afar traustur og hafði mikið til málanna að leggja. Þrátt fyrir frjálslegt hárið var hann mikill íhaldsmaður, jafnvel með nokkuð fornum hætti.

Mér er minnisstætt, að þegar leið að fæðingu Sverris hafði Bergsteinn á orði að sér þætti fráleit þessi tíska að feður væru viðstaddir fæðingar. Hefði gengið ágætlega fram til þessa án þess að feðranna nyti við. Þegar til kom var hann auðvitað viðstaddur fæðinguna og hefði örugglega ekki viljað missa af því, svo stoltur sem hann var af syninum. Aldarfjórðungi síðar, upp á dag, tilkynnti hann svo að Sverrir hefði fært þeim Unni fyrsta barnabarnið, sem var mikið gleðiefni. Bergsteinn vissi að enginn auður var meiri en sá að eiga góða fjölskyldu, sem hann vissulega átti í Unni, Sverri og Unni Ástu.

Við vorum svo samstíga í lagadeildinni til útskriftar, brugðum ásamt Georg félaga okkar á það ráð að ganga til ritgerðarskrifa um sumar þegar lítt spennandi atvinna var í boði, og flýta útskrift þar með um hálft ár. Það efldi enn tengslin að útskrifast í svo smáum hópi bestu félaga sinna. Bergsteinn var einnig einn fárra vina sem svaraði sendibréfum þegar ég bjó í útlöndum um árabil. Fyrir daga netsins var gaman að fá fréttir af mönnum og málefnum í vel skrifuðu sendibréfi, ekki síst með svo fagurri rithönd sem Bergsteinn bjó yfir og ég öfundaði hann ætíð af.

Ég get illa kvatt Bergstein án þess að minnast á skák, svo ríkur þáttur var hún í samskiptum okkar og félaga okkar úr lagadeildinni. Saman stofnuðu 8 okkar Skákrannsóknarfélagið, sem hefur reyndar fremur verið kjaftaklúbbur en að standa undir nafni. Nú erum við 6 eftir. Það er alltof stórt skarð höggvið í ekki stærri hóp manna enn á besta aldri. En menn fá víst ekki alltaf ráðið sínum næturstað.  Víst er að við sem eftir erum kveðjum Bergstein með miklum söknuði.  Samskiptin voru, því miður, ekki eins mikil undir það síðasta og áður. Þegar við hittumst eða ræddum saman var þráðurinn ávallt tekinn upp þar sem frá var horfið, svo sem engin rof hefðu orðið og aldrei bar skugga á samskiptin.

Elsku Unnur, hugur okkar Kristínar er hjá þér og fjölskyldunni. Það er allt of snemmt að kveðja Bergstein núna. Það væri mun réttara að eiga von á boði í fimmtugsafmæli en vera á leið í jarðarför. En drottinn gaf og drottinn tók. Ég vona að hann og minningin um góðan eiginmann og föður veiti ykkur styrk á þessari erfiðu stundu.

Gunnar Jónsson