Helga Guðmundsdóttir var fædd í Nýjabæ í Kelduhverfi 26. september 1916. Hún lést á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund 4. júlí síðast liðinn. Hún var yngsta dóttir hjónanna Guðbjargar Ingimundardóttur, húsmóður, f.16.7.1877, d. 18.6.1951, og Guðmundar Guðmundssonar, bónda og farkennara f. 12.5.1879, d. 29.1.1933. Systur Helgu voru: 1) Anna, ljósmóðir á Grenivík, f. 30.5.1907, d. 18.2.1983, var gift Þorbirni Áskelssyni, útgerðarmanni, f. 6.7.1904, d. 14.4.1963. Þau eignuðust sex börn. 2) Jóhanna Sigríður, f. 29.5.1909, d. 2.1.1997, verslunarmaður á Siglufirði og síðar saumakona í Reykjavík. 3) Hólmfríður, verslunarmaður á Siglufirði, f. 11.4.1911, d. 30.10.1982, var gift Þórhalli Björnssyni, verslunarstjóra, f. 19.11.1912, d. 2.7.1992. Þau eignuðust eina dóttur. 4) Guðrún Aðalbjörg, f. 5.9.1912, d. 24.2.1984, verslunarmaður á Akureyri og síðar saumakona í Reykjavík. 5) Birna, f. 15.10.1914, d. 15.01.2003, rak prjónastofu á Akureyri og síðar ráðskona í Núpasveit. Helga vann lengi við verslunarstörf í Verzluninni Eyjafjörður á Akureyri og bjó þá við Bjarmastíg ásamt Guðrúnu og Birnu systrum sínum en tók síðan að sér fimm barna heimili fyrir Gunnar Kristjánsson kaupmann er kona hans veiktist og bjó í mörg ár að Hafnarstræti 86 á Akureyri. Til Siglufjarðar fluttist Helga síðan 1961 og bjó þar ásamt Jóhönnu systur sinni. Þar vann hún hjá Kaupfélagi Siglfirðinga og þá lengst af í mjólkurbúð. Árið 1970 fluttu þær Jóhanna til Reykjavíkur og þá hóf Helga störf hjá Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund þar sem hún vann við umönnun í 16 ár. Útför Helgu fer fram frá Fossvoskapellu, þriðjudaginn 14. júlí og hefst athöfnin kl: 11:00.

Nú er komið að kveðjustund.
Helga var alltaf kölluð amma Helga á okkar heimili eftir að Ásgeir Egill ákvað, þegar hann var lítill, að kalla hana ömmu Helgu. Held ég að henni hafi þótt vænt um það. Þetta sýnir líka vel hversu barngóð hún var.

Helga hafði einstaklega góða nærveru, var svo hlý, jákvæð, glöð og þakklát. Hún var mikill listamaður í höndum og fengum við og börnin okkar að njóta þeirra afrakstra. Þetta eru allt einstakir hlutir sem við höldum mikið upp á og munu minna okkar á hana um ókomna tíð.

Við hefðum viljað kveðja Helgu á Íslandi en kveðjum hana hér á okkar hátt. Við kveiktum á kertum sem hún bjó til og gaf strákunum. Svo fann Arnar engil sem hann setti við hlið ljósmyndar af henni.

Við minnumst ömmu Helgu með þakklæti og biðjum Guð að passa hana

Anna Birna, Jón, Ásgeir Egill og Arnar.