Guðborg Hera Guðjónsdóttir fæddist í Hafnarfirði 2. apríl 1926. Hún lést á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 26. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guðjón Benediktsson, f. 26.11. 1890, d. 5.2. 1988, og Margrét Elínborg Jónsdóttir , f. 3.1. 1892, d. 22.2. 1968. Systkini Heru: Ásgrímur, f. 1913, d. 1977, Steinunn, f. 1915, d. 1997, Ingibjörg, f. 1918, d. 2005, Hulda, f. 1921, Guðrún, f. 1924, d. 1996, Elsa, f. 1928, Haukur, f. 1932, d. 2006, og Óskar, f. 1936. Hera giftist Helga Sævari Guðmundssyni 2. apríl 1949. Þau eignuðust tvö börn. 1) Guðsteinn Elfar, f. 8.2. 1948, maki 1 (skildu): Guðbjörg Guðjónsdóttir. Barn þeirra er Berglind, f. 8.1. 1970, maki Geir Sigurðsson, synir þeirra eru Ágúst Guðni og Geir Aron. Maki 2: Rósa Þórðardóttir, f. 8.12. 1956, börn þeirra eru: a) Hera, f. 7.10. 1976, sambýlismaður Friðfinnur Hreinsson, fóstursynir Heru, synir Friðfinns, eru Þorsteinn og Hreinn. b) Þórður, f. 3.6. 1979, sambýliskona Ásrún Benediktsdóttir, c) Helgi, f. 18.8. 1986. 2) Elínborg Helga, f. 12.6. 1952, maki Rúnar Helgi Sigdórsson, f. 11.7. 1942, d. 17.5. 2001. Dætur þeirra eru a) stúlka, f. 22.2. 1973, d. 22.2. 1973 b) Helena Björk, f. 3.11. 1977, sambýlismaður Jón Garðar Jónsson sonur Helenu Bjarkar er Yngvi Freyr. c) Helga Rut, f. 7.12. 1978, maki Valgeir Helgason. Börn þeirra eru Svandís Dagmar og Sævar Orri. Fósturbörn Helgu, börn Rúnars frá fyrra hjónabandi, eru: Guðrún Dagmar, f. 26.9. 1961, maki Gísli Jónsson. Börn þeirra eru Hrefna Sif og Jón Rúnar. Sigdór, f. 17.2. 1963, maki Erla Kristín Birgisdóttir. Börn þeirra eru Indiana og Arnar Jóel. Sonur Indiönu er Kristófer Rúnar, Þórunn, f. 18.12 1967, maki Kristinn Valgeirsson. Börn þeirra eru Sveinn Ágúst, Daníel Andri, Indíana Guðný og Sigdór Yngvi. Dóttir Sveins Ágústs er Unnur Björk. Hera bjó alla sína tíð í Hafnarfirði. Bernskuheimilið var Gunnarsund 7. Eftir að hún og Helgi hófu sambúð fluttust þau fyrst á Vesturbraut 24, þaðan lá leiðin á Garðaveg 3 . Árið 1963 fluttust þau á Hringbraut 74 og þar bjuggu þau allt til ársins 2004, er þau fluttu á Hraunvang 3. Hera starfaði alla tíð við verslunarstörf í Hafnarfirði. Hún var mikil félagsvera og tók virkan þátt í félagsmálum. Var m.a. um tíma í stjórn Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, SVDK Hraunprýði og stjórn eldri borgara í Hafnarfirði. Hún var heiðursfélagi bæði hjá Verslunarmannafélaginu og SVDK Hraunprýði. Útför Heru fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. júlí, kl. 15.

Þá er elsku Hera-amma gengin á braut og skilur eftir sig góðar og hugljúfar minningar. Við tengslabörnin viljum þakka þér allan þann hlýhug og vináttu sem þú ávallt sýndir okkur, allt frá fyrstu stundu. Þú varst ætíð lífsglöð og félagslynd, upptekin af ættfræði og eins og uppflettibók um ættir innfæddra Hafnfirðinga langt aftur í kynslóðir. Það duldist engum að þér var annt um þína nánustu, fylgdist vel með öllum hópnum og vissir fátt skemmtilegra en að hitta og spjalla við slektið á góðri stundu. Þú varst með ólæknandi áhuga á spilamennsku og vonandi siturðu nú til borðs með gengnum bridsspilurum og nýtur lífsins á nýjum stað.

Kæra Hera-amma. Við viljum að þínu lífsverki loknu þakka fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og biðjum góðan Guð um að umlykja og styrkja elsku Helga-afa á erfiðri stundu.

Elsku Helgi-afi, Helga, Elfar og fjölskyldur. Hugurinn er hjá ykkur og við vottum ykkur dýpstu samúð. Blessuð sé minning Heru-ömmu.

Guðrún Dagmar, Sigdór, Þórunn og fjölskyldur.

Elsku amma mín.

Ég trúi ekki að þú sért farin frá mér. Það er svo margt sem ég á eftir að sakna, eins og t.d. að grípa í spil, rölta um Smáralindina og tala við þig um allt og ekkert.  Alltaf mundir þú eftir afmælisdögum okkar Valgeirs og hringdir þá í okkur, en alltaf varstu tilbúin með pening handa Svandísi Dagmar og Sævari Orra til að ég gæti farið og keypt eitthvað fallegt handa þeim. Þú varst búin að biðja mömmu um að láta Sævar Orra fá pening í afmælisgjöf núna síðast en ekki gat hann þakkað þér fyrir hana þar sem þú lést tveimur dögum fyrir afmælið hans. Ég er búin að kaupa nytsamlega gjöf handa honum og vil ég því þakka þér fyrir hana.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

( 23. Davíðssálmur.)

Elsku afi, mamma og Elfar, megi Guð styrkja ykkur í gegnum þessa miklu sorg.

Takk fyrir allt elsku amma mín.

Ég elska þig.

Þín,

Helga Rut

Elsku Hera amma mín.

Ég sakna þín alveg rosalega mikið. Ég var í Vestmannaeyjum þegar þú lést og mér fannst leiðinlegt að geta ekki verið hjá þér. En ég kvaddi þig áður en ég fór og það er gott. Mér fannst alltaf svo gaman að spila við þig og þegar ég spurði þig um að spila þá sagði þú alltaf já. Þú gleymdir aldrei afmælinu mínu og gafst mér alltaf pening svo að mamma og pabbi gætu keypt eitthvað fallegt handa mér. Ég er búin að hugsa vel um Helga afa og ætla alltaf að gera það. Þér líður betur núna og ég veit að  Rúnar afi tekur vel á móti þér og þið eruð örugglega að spila núna og fylgjast með okkur hinum.

Elsku Helgi afi og Helga amma, ég vona að Guð hjálpi okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.

Hvíldu þig nú elsku Hera amma mín.

Ég elska þig og sakna þín.

Þín,

Svandís Dagmar.

Elsku mamma mín.

Ekki átti ég von á því að þú yrðir tekin svona fljótt frá mér. Veikindi þín báru svo brátt að. Mér finnst ég eiga eftir að segja þér svo margt ,sem er bara á milli okkar. Söknuðurinn minn er mikill, símtölin á hverju kvöldi, bíltúrarnir um helgar og allar okkar samverustundir. Eins veistu að þú og pabbi voruð mín stoð og stytta eftir að Rúnar lést og ég varð ein.

Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Elsku pabbi minn og Elfar bróðir, þetta eru þung spor og missir okkar allra er mikill en við eigum bjartar minningar um mömmu og þær munu lýsa okkur um ókomin ár.

Elsku mamma mín, ég elska þig og sakna.

Ég mun ávallt hugsa vel um pabba fyrir þig.

Þín dóttir,

Helga.