Hjalti E. Hafsteinsson fæddist í Reykjavík 12. júli.1953. Hann lést á hjartadeild Landsspítala við Hringbraut þann 06. júli.2009. Foreldrar eru Nína G. Hjaltadóttir f.1934 d. 2006. og Hafsteinn Eyjólfsson f. 1934. Systkini Hjalta eru : 1) Eyjólfur Hafsteinsson f. 1963. 2) Rakel Hafsteinsdóttir f. 1964. 3) Hafsteinn Hafsteinsson f. 1966. 4). Margit Hafsteinssdóttir f .1970. 5) Ragnar Hafsteinsson f. 1975. Eiginkona Hjalta er Þórdís Eygló Sigurðardóttir f. 1950. Foreldrar hennar eru Sigurður Jóhannesson f.1932, d.1996, og Hulda R. Egilsdóttir f.1927, d.1981. Börn þeirra eru 1) Rannveig Einarsdóttir f. 1967, gift Jóni S. Þorbergssyni f.1966, börn þeirra Jón Þór Jónsson f. 1987, Sigrún Gróa Jónsdóttir f. 1992. 2) Sigurður Hrannar Hjaltason f. 1982. sambýliskona Herdís Anna Ingimarsdóttir f. 1984. barn þeirra Freyja Örk Sigurðardóttir f. 2008. 3) Pálmi Gunnlaugur Hjaltason f. 1985. barnsmóðir Anna Rakel Ólafsdóttir f. 1985 barn þeirra Clara Hrönn Pálmadóttir f. 2005. Hjalti var skáti alla ævi og sýndi skátahreyfingunni alltaf mikinn áhuga. Hann var lærður vélvirki en starfaði mestan part ævinnar sem bifreiðastjóri. Bæði sem rútubílstjóri, strætóbílstjóri og núna síðustu ár sem leigubílstjóri. Farþegar Hjalta höfðu það alltaf gott með honum, enda málglaður mjög og talaði við alla um allt og ekkert og aldrei var grínið langt undan enda húmoristi mikill. Áður fyrr sinnti Hjalti einnig starfi rótara, og voru það ófáar hljómsveitirnar sem unnu með honum, t.d Þursaflokkurinn, enda öruggt að þær fengju einn rótara með öllu. Hann kom bandinu hratt og örugglega á áfangastað, var græjukall, viskubrunnur og alheimsreddari, og ef í harðbakkan sló gat hann spilað á hin ýmsu hljóðfæri, enda músíkant mikill. Hann var líka mikill áhugamaður um akstursíþróttir á Íslandi og keppti í rally frá upphafi þeirrar greinar, var í stjórn BÍKR og tók virkan þátt í uppbyggingu LÍA til aldamóta eða svo. Hann var aðal regluhöfundur sambandsins, sat í fjölda dómnefnda og keppnisstjórna. Hjalti lagð allt sitt í uppbygginu og kynningu íslenskra akstursíþrótta erlendis og var undanfarin ár tengiliður keppenda í Rally Reykjavík. Hjalta verður sárt saknað á þessum vettfangi því hann lagði þar meira að mörkum en marga grunar. Hann var mikill félagsmaður og var meðal annars varaformaður Sleipnis ásamt að gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Hjalti sat einnig í Stjórn Frama 2003-2009. Útför Hjalta verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst klukkan 13.

Það er með miklum söknuði sem akstursíþróttafólk á Íslandi kveður Hjalta E. Hafsteinsson.  Um leið eru þökkuð hin miklu og óeigingjörnu störf hans í þágu uppbyggingar þessarar ungu íþróttagreinar.  Hjalti kom að verki í árdaga ralls á Íslandi.  Hann var keppandi í nokkrum keppnum, aðallega sem aðstoðarökumaður.  Brautin beindist fljótt í keppnissjórnir, tímavörslu, auk þess að vera stjórnarmaður og formaður Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur um skeið.  Um áraraðir var Hjalti sjórnarmaður í Landssambandi íslenskra akstursfélaga og hans helsta verk á þeim vetvangi var reglusmíði og þýðingar á erlendum keppnisreglum.  Allir sem taka þátt í akstursíþróttum í dag njóta verka Hjalta þegar kemur að öryggi keppnisbíla, en hann þýddi til dæmis alþjóða öryggisreglur FIA á íslensku eins og veltibúrareglurnar.

Hjalti kom þó að fleiri greinum en Rally.  Hann var óþrjótandi viskubrunnur um allar greinar sem hér eru stundaðar eins og Torfæru, Kvartmílu Gokart og Rallykross.  Alltaf var hægt að leita til Hjalta með fyrispurnir, túlkanir á reglum og ráðleggingar.  Fáir hafa skilið eftir dýpri spor í akstursíþróttum á Íslandi og örugglega margir sem ekki gera sér grein fyrir því, hve mikið Hjalti E. Hafsteinsson gaf af sér í þessu sambandi.  Þeir sem með honum störfuðu þakka þó mest viðmótið, glaðværðina, allar sögurnar og hlíleikann sem fylgdi honum hvar sem hann kom.  Fyrir það er þakkað í dag og minningarnar geymdar í hjörtum þeirra sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum.  Minningin um góðan dreng lifir.

Akstursíþróttanefnd ÍSÍ/LÍA sendir fjölskyldu og vinum Hjalta E. Hafseinssonar sínar innilegustu samúðarkveðjur.


F.h. Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA, Ólafur Kr. Guðmundsson.