Helga Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 17. mars 1951. Hún lést úr krabbameini á heimili sínu 24. júní 2009. Foreldrar hennar eru hjónin Bjarni Gíslason, f. 17. júlí 1929 og Erla Þorvaldsdóttir, f. 9. nóvember 1931. Systkini Helgu eru: 1) Þórir, f. 8.6. 1956, maki Sigrún Gunnlaugsdóttir, f. 1951, börn Ása Lára, f. 1978, Erla Súsanna, f. 1982 og Fanney Ósk, f. 1991. 2) Anna Kristín, f. 18.1. 1964, maki Carsten Frøslev, f. 1967, börn Brynjar Árni, f. 1986, og Benjamín, f. 2006. Helga giftist Einari Þorgeirssyni, f. 13.12. 1948, d. 3.4. 1990. Börn þeirra eru: 1) Sigríður Margrét, f. 13.10. 1972, maki Einar Rögnvaldsson, f. 1973, börn Fjölnir Þór, f. 1996, Einar Örn, f. 1999, og Emilía Ósk, f. 2003. 2) Einar Geir, f. 20.9. 1974, dóttir Rebekka Lind, f. 2005. 3) Bjarni Þór, f. 20.9. 1974, maki Guðlaug Jóhannsdóttir, f. 1977, sonur Aron Þór, f. 2008. Helga giftist 19. júlí 1997 Eggerti Val Þorkelssyni, f. 9.5. 1952. Dóttir þeirra er Erla Rut, f. 17.7. 1994. Börn Eggerts eru: 1) Sunneva, f. 14.10. 1975, maki Hjalti G. Unnsteinsson, f. 1968, börn Elvar Örn, f. 1990, Máney Dögg., f. 2000, Eydís Dúna, f. 2005, og Eysteinn, f. 2009. 2) Hulda Margrét, f. 18.2. 1979, maki Rajan Sedhai, f. 1976. 3) Gísli Valur, f. 11.9. 1981, maki Kristín Bachman, f. 1975, börn Tómas, f. 1993, og Perla Dís, f. 2000. 4) Gunnar Örn, f. 3.2. 1983. Helga ólst upp í Reykjavík og lauk prófi í hárgreiðslu frá Iðnskólanum í Reykjavík 1973. Hún lærði á hárgreiðslustofunni Gígju í Reykjavík og starfaði eftir það á Hárgreiðslustofunni Kristu í Reykjavík. Hún opnaði Hárgreiðslustofuna Carmen í Hafnarfirði árið 1984 sem hún starfrækti af mikilli atorkusemi í 25 ár. Helga bjó lengst af í Norðurbænum í Hafnarfirði en fluttist síðan til Garðabæjar þar sem hún bjó síðustu 16 árin. Helga sat í stjórn og var virkur meðlimur í hinum alþjóðlegu hárgreiðslusamtökum Inter Coiffure um árabil og var ennfremur formaður sveinsprófsnefndar og prófdómari við Iðnskóla Reykjavíkur í 16 ár. Einnig sat Helga í stjórn heildverslunarinnar Aríu sem flytur inn hársnyrtivörur. Helga var afar listræn og hún fékk mikla útrás fyrir það í starfi sínu en einnig var hún mikill listmálari. Hún skilur eftir sig mörg málverkin sem prýða fallegt heimili hennar og víðar. Helga verður jarðsungin frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 2. júlí, og hefst athöfnin kl. 15.

Í dag kveðjum við vinkonu okkur Helgu Bjarnadóttur hárgreiðslumeistara. Margar minningar koma upp í hugann. Alltaf tók hún vel á móti okkur mæðgunum þremur þegar við komum í fegrun til hennar á Carmen í Hafnarfirði.

Í huga þeirrar yngstu í hópnum stendur upp úr sú tilhlökkun og gleði sem fylgdi því í mörg ár að undirbúa sig fyrir árshátíð Icelandair. Við vinkonurnar komum á Carmen og lögðum hárgreiðslustofuna undir okkur. Drukkum kampavín og gæddum okkur á snittum og jarðarberjum á meðan Helga fór höndum um hár okkar og gerði hvert meistarAverkið á fætur öðru. Það voru ekki bara við vinkonurnar sem hlökkuðum til að koma heldur var Helga eins og ein af hópnum og tók þátt í gleðinni af lífi og sál. Fyrstu árin var Helga ein með okkur en svo fjölgaði í hópnum og Sirrý dóttir hennar hafði einnig hendur í hári okkar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá okkar fyrstu kynnum sem nágrannar og vinir. Gleði og sorg hefur knúið dyra í gegnum árin.

Helga átti stóra fjölskyldu og var vinamörg og alltaf nóg að gera hjá henni í starfi og leik. Henni fylgdi kraftur og gleði hvar sem hún fór og glæsileiki hennar leyndi sér ekki svo eftir var tekið.

Við kveðjum Helgu vinkonu okkar með þessu fallega ljóði, Mig dreymdi mikinn draum, eftir Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup og vottum fjölskyldunni allri innilega samúð.

Mig dreymdi mikinn draum: Ég stóð
með Drottni háum tindi á
og horfði yfir lífs míns leið,
hann lét mig hvert mitt fótspor sjá.

Þau blöstu við. Þá brosti hann.
Mitt barn, hann mælti, sérðu þar,
ég gekk með þér og gætti þín,
í gleði og sorg ég hjá þér var.

Þá sá ég fótspor frelsarans
svo fast við mín á langri braut.
Nú gat ég séð hvað var mín vörn
í voða, freistni, raun og þraut.

En annað sá ég síðan brátt:
Á sumum stöðum blasti við
að sporin voru aðeins ein.
- Gekk enginn þá við mína hlið?

Hann las minn hug. Hann leit til mín
og lét mig horfa í augu sér:
Þá varstu sjúkur, blessað barn,
þá bar ég þig á herðum mér.

(Sigurbjörn Einarsson

Bergþóra Kristín, Nína Valgerður og Bergþóra Jóhannsdóttir.

Elsku frænka mín. Ég á margar góðar minningar um þig og sérstaklega eru þær mér minnisstæðar þegar ég var lítil stelpa. Það var toppurinn að fá að fara í heimsókn á hárgreiðslustofuna hjá Helgu frænku. Ég fékk að greiða æfingahausana og stússast í hinu og þessu. Mér fannst þú ótrúlega flott frænka, að eiga hárgreiðslustofu og vera besta hárgreiðslukonan á Íslandi og þó víðar væri leitað. Ég gleymi síðan seint þegar ég opnaði jólapakkann ein jólin og sá mér til mikillrar gleði að þú gafst mér mína eigin ponyhárgreiðslustofu. Ég leit upp til þín, því þú varst mjög dugleg og sjálfstæð kona.
Helga frænka var alltaf ótrúlega smart og vel til höfð en þín innri manneskja var þó það sem var fallegast við þig. Þú varst góð, skemmtileg, hláturmild og sýndir undir það síðasta ótrúlegan viljastyrk og við hin ættum að taka það okkur til fyrirmyndar. Ég mun minnast þín sem einstaklega sterkrar, áberandi og glaðlegrar manneskju sem varst alltaf einstaklega gestrisin og félagslynd. Ég hefði viljað eiga fleiri stundir með þér síðustu ár en er afskaplega þakklát fyrir þær samverustundir sem við áttum saman í gegnum tíðina og þakka ég þér fyrir þær og kveð þig með sorg í hjarta.

Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn.),#

Ég votta fjölskyldu Helgu mína dýpstu samúð. Hvíldu í friði.

Erla Súsanna Þórisdóttir

Glæsileiki, dirfska, áræðni og þor. Öll þessi orð koma upp í huga mér við rætur endurminningana. Við Helga kynntumst á götunni eða svokallaðri Vesturgötunni fyrir utan mjólkurbúðina. Ég var af Ránargötunni á leið í búðina og þú að fara til afa skóara Helga eins og hann var ávallt nefndur og upp frá því hafa leiðir okkar legið saman og við verið vinkonur í 50 ár, ég í jazzballett þú í jazzballett ég í hárgreiðslu og þú í hárgreiðslu. Ég hitti kærasta þú hittir kærasta við trúlöfuðum okkur á sama degi í sama herbergi á Ránargötu 46. Við fæddum báðar stúlkubörn, og höfðum við gaman af því að fara í útilegur, tekið var til við að baka og gera allt klárt fullir stampar af skúffusúkkulaði og hjónasælu, svið hangikjöt og kótelettur í raspi. Grillin voru ekki komin sem engin getur verið án í dag. Ég gleymi ekki þegar við vorum saman í Chicago þegar allir keyptu grill 17 ef ekki fleiri og ég fékk kaupæði sem aldrei fyrr, þar vorum við ólíkar en þú varst stolt af mér. Þegar við tókum leigubíl út á flugvöll sást ekki í hausana á okkur fyrir varningi, tollararnir ætluðu ekki að hleypa okkur í gegn en það var 4. júlí, þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna og við fengum að fara í gegn.

Talandi um nískupúka mig, við saman á Englandi ég vildi taka lestina eða túbuna og þú leigubíl, þú í þínum beautyskóm komin með sár á báða hæla blótandi mér í sand og ösku fyrir þessa nísku mína, oft hlógum við af þessu. Á yngri árum vorum við saman í kór Árnesinga, þá vorum við sko skvísur, þú hafðir alltaf gaman af söng milliröddin var þitt uppáhald, þ.e.a.s. annar sópran, við áttum margar skemmtilegar stundir, nú syngur þú með hinum englunum.

Elsku Helga mín, í lífinu hafa verið skin og skúrir, ég er svo glöð að hafa átt samverustund með þér í Þrastarlundi í hjólhýsinu þínu með vinum og ættingjum fyrir svo stuttu síðan, takk fyrir samferðina. Hvíl í friði.

Elsku Eggert, Sirrý, Bjarni, Einar og Erla Rut Guð geymi ykkur.

Dagur er risinn.
Ég legg saman lófa mína
íhvolfa eins og skel,
og bið þess að dagurinn
verði dýrmæt perla
í höndum mínum.
(Sigurlaug Ólöf Guðmundsdóttir)

Þín vinkona,

Dandý

Fallin er frá yndileg kona sem ég er búin að þekkja frá því ég var barn. Helga var glæsileg kona, sem var óaðfinnanleg til fara og var oft á undan sínum samtíma hvað tísku varðar. Ég á margar fallegar og góðar minningar um hana Helgu. Að vera í kringum Helgu var alltaf skemmtilegt, þegar Helga var með sögustund um einhver atvik sem hafði hent hana, þá hreinlega gat maður hlegið endalaust, hún sagði svo skemmtilega frá öllu. Mín tenging við Helgu er í gegnum Sirrý. Árið 1990 var erfitt ár fyrir fjölskylduna, og ákvað Helga að drífa fjölskylduna til Spánar, ég  var svo heppin að fá að fara með, þar áttum við öll yndislegan tíma og sú minning lifir sterk í hjarta mínu.

Elsku Helga og Sirrý þið eruð hetjur í mínu lífi það er nú ekki langt síðan við áttum yndislegan tíma saman í Stokkhólmi þegar ég og Sigrún komum í heimsókn til Sirrýar vorum við svo heppnar að Helga og Eggert voru á sama tíma. Þar áttum við notalega stund saman þar sýndi hún okkur það sem hún verslaði í Kína. Þar gerði Helga mörg góð kaup þ.a.m. bleika kápu sem hún prúttaði,  sagðist sennilega aldrei koma til með að nota kápuna en varð að eignast hana af því að hún gat prúttað hana ódýrt. Hún elskaði að prútta. Þessi stund yljar manni um hjartarrætur á þessum erfiðum tímum.
Elsku Sirrý, Einar Geir,Bjarni Þór, Erla Rut og fjölskylda. Ykkar missir er mikill, minning um stórbrotna konu lifir í hjörtum okkar alla tíð.

Inga og fjölskylda.

Elsku Helga.
Með þessum örfáu orðum viljum við minnast þín og þakka vináttu og samfylgd í gegnum tíðina. Við biðjum algóðan guð að styrkja og blessa fjölskyldu þína og vini í mikilli sorg þeirra.

Góður Guð, ó, lát þú ljós þitt skína
í hjörtu þeirra sem að sorgir hrjá.
Ég drjúpi höfði og bið um miskunn þína
að hin hrjáðu börn þín megi ljós þitt sjá.

Þó sorgin þjaki bænin er það besta
í bæninni við berumst smá til þín.
Þú getur linað þjáningu og læknað
og ljósið látið skína í hjörtun þín.

Við krjúpum fram og biðjum Guð að blessa
alla þá sem syrgja og hafa misst.
Ó, gef þeim hvíld sem sorgir hafa þjakað.
Ó, kenndu okkur að biðja þig um styrk.
(Ingimar Guðmundsson.)


Eigendur og starfsfólk Aríu heildverslunarinnar

Mig langar að kveðja kæra vinkonu með þessum orðum úr Hávamálum.


Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.


Falleg kona, yndisleg manneskja og frábær fagmaður.

Elsku fjölskylda, ykkur sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Með þökk fyrir öll árin á Carmen,

Þorgerður og fjölskylda.